133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:43]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þau ákvæði sem ég vísaði til í ræðu minni áðan hafi verið allskýr. (Gripið fram í.) Ég viðurkenni hins vegar að við þessa umræðu hafa menn varpað fram mismunandi sjónarmiðum um einstök atriði í því sambandi. Ég þykist vita að þau sjónarmið muni koma fram í nefndarstarfinu sem við eigum fyrir höndum og hlökkum að sjálfsögðu öll til.

Ég held að það verði mjög áhugavert að fara í það mál og velta upp þeim álitamálum sem þar kunna að verða fyrir hendi. Það sem skiptir máli er að úr því starfi komi skynsamleg niðurstaða þar sem góður skilningur liggur fyrir á þeim atriðum sem um er að ræða. Ég verð hins vegar að segja að mér finnst að í ræðum hv. þingmanns og annarra talsmanna stjórnarandstöðunnar í dag hafi birst mjög mismunandi skilningur á einstökum hugtökum og orðanotkun í þessu sambandi. Það má vera að nefndarstarfið (Forseti hringir.) verði til þess að skýra þau mál frekar.