133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður að hv. þingmaður hafi ekki hlýtt á þessa umræðu. Við sem höfum gert það og hlýtt á hana alla með athygli vegna þess að við áttum okkur ekki alveg á frumvarpinu og höfum þess vegna viljað hlýða á stjórnarliða, höfum spurt hér spurninga, skýrra og einfaldra spurninga, til að átta okkur á hver sé eiginlega vilji stjórnarliða með frumvarpinu en það hefur ekki komið fram skýrt svar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann annarrar spurningar. Í þessu ákvæði segir að nýta eigi auðlindina til hagsbóta fyrir þjóðina en nú bendir ýmislegt til þess, m.a. reynsla okkar, að kerfið sem við búum við hafi ekki verið til góðs. Við fáum miklu minna úr auðlindinni en áður en við tókum kvótakerfið upp. Það er óumdeilt. Við veiðum helmingi færri þorska en við gerðum fyrir daga þessa kerfis. Þess vegna langar mig að spyrja hv. (Forseti hringir.) þingmann hvort ekki bendi ýmislegt til þess í ljósi þessa ákvæðis (Forseti hringir.) að við ættum að varpa þessu kerfi fyrir róða eftir gildistöku ákvæðisins, ef það verður þá að stjórnarskrárákvæði.