133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:03]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður valdi í ræðu sinni sömu leið og hv. þm. Birgir Ármannsson valdi áðan, þ.e. að fjalla lítið ef nokkuð um það ákvæði sem er hér til umræðu heldur fara almennum orðum um það hvað einhverjir kunna að meina um að þetta þýði o.s.frv.

Hv. þingmaður sagði einnig að það væri afar mikilvægt að stjórnarskrárákvæði væru skýr, að það kæmi skýrt fram hvað við væri átt. Hann sagði að það væru þó tveir skýringarkostir varðandi þetta tiltekna ákvæði. Sá fyrri var einhvers konar almenn stefnuyfirlýsing, sem síðan verður væntanlega að fylla og skýra. Seinni skýringarkosturinn var sá að þetta væri merkingarlaust með öllu.

Þetta voru þeir tveir skýringarkostir sem hv. þingmaður gefur um innihald þess frumvarps sem við ræðum hér en lét það fylgja með að mikilvægt væri að stjórnarskrárákvæði væru skýr.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé mjög auðvelt að draga þá ályktun af þessum orðum hv. þingmanns að ákvæðið hefði í raun og veru ekki neinar breytingar í för með sér. Því spyr ég hv. þingmann hvort það sé rétt skilið hjá mér að skilningur hv. þingmanns sé þá hinn sami og hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að hér sé um að ræða innihaldslaust ákvæði, merkingarlaust, sem að óbreyttu mun ekki hafa nein áhrif á eignarrétt á auðlindum hér á landi.