133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:06]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við erum ósammála um að gefa eigi náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar eða afhenda þær án gjalds. Við erum ósammála um það. Hv. þingmaður og flokkur hans vilja fara þá leið að afhenda og gefa náttúruauðlindir. Við viljum hins vegar tryggja ákvæði þess efnis í stjórnarskrá að það sé einungis hægt að afhenda þær gegn gjaldi eins og auðlindanefndin komst að á sínum tíma.

Ég skynjaði það í ræðu hv. þingmanns að hann er í raun og veru sama sinnis og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að hér sér fyrst og fremst um að ræða einhvers konar niðurstöðu vegna hótana Framsóknarflokksins um stjórnarslit. Það varð einhvern veginn að lenda málinu (Forseti hringir.) og að hér sé fyrst og fremst á ferðinni sýndarmennska sem hafi í (Forseti hringir.) raun og veru enga merkingu.