133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður slær því föstu að samþykkt þessa frumvarps mundi hafa réttaráhrif. Ég er heldur betur sammála honum um það. Hins vegar kann okkur að greina á um hvers konar réttaráhrif það muni hafa.

Hver telur hv. þingmaður að þau áhrif verði, verði frumvarpið samþykkt? Hv. þingmaður taldi síðan að ég vildi afturkalla allar veiðiheimildir án bóta og um það efni vísa ég til ræðu minnar fyrr í dag. Ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson höfum t.d. bent á leiðir sem fela það í sér að hægt væri að innkalla kvótann með bótum án þess að við höfum endilega verið að lýsa yfir miklu fylgi við þá stefnu, en það eru leiðir til þess.

Hins vegar nefndi hv. þingmaður læriföður sinn, Sigurð Líndal prófessor. Það liggur auðvitað ljóst fyrir að Sigurður Líndal prófessor hefur manna gleggst sýnt fram á það að samkvæmt núgildandi lögum er ekkert því til fyrirstöðu að innkalla úthlutaðar veiðiheimildir í áföngum á löngu tímabili og endurúthluta þeim gegn gjaldi sem kynni þá eftir atvikum að vera tímabundið þar sem allir ættu jafnan rétt á að bjóða í þær.

Ekkert sem ég hef sagt, hvorki fyrr né síðar, um veiðiheimildir, stjórnarskrá og þjóðareign gengur lengra en það sem lærimeistari hans hefur sagt. Ég veit að hv. þingmaður gjörþekkir þetta því að hann er uppalinn í lögfræðinni undir handarjaðri hans. Ég er viss um að jafnmikill áhugamaður og hv. þingmaður a.m.k. bregður upp mynd af sér að hann sé um þjóðareign og stjórnarskrá, hlýtur að hafa lesið álitsgerð Sigurðar Líndals og prófessors Þorgeirs Örlygssonar árið 1998. Þar er þetta einfaldlega (Forseti hringir.) klappað í stein.