133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:12]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vísaði til hæstv. forsætisráðherra sem svari við spurningu minni um hver réttaráhrifin yrðu. Ég hneigist til þess að telja að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi ekki nokkra minnstu hugmynd um hver þessi réttaráhrif yrðu. Af máli hæstv. forsætisráðherra í dag mátti ekki ráða annað en að allt yrði óbreytt. Það er svona svipað og einn af lærimeisturum hv. þingmanns, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, hefur sagt, ekkert mun breytast allt stendur óhaggað. Þetta er þykjustufrumvarp. Það var nú dómur hans.

Það breytir ekki hinu að það liggur fyrir að samkvæmt óbreyttum lögum væri hægt að innkalla veiðiheimildir án bóta ef það er gert með hæfilega löngum fyrirvara. Það er bara í gadda slegið. Við getum síðan deilt um hvort það sé rétt leið og hugsanlega ekki verið sammála.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hver er afstaða hans til þessa frumvarps? Ætlar hann að samþykkja (Forseti hringir.) það?