133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. (ÖS: Láttu hann hafa það …) Nú tökum við á. Þetta frumvarp hér til stjórnarskipunarlaga sem hefur verið rætt í dag og hæstv. forsætisráðherra hefur mælt fyrir er, eins og fram hefur komið í ræðum, sérstakt fyrir það að einungis tveir flokkar leggja það fram, stjórnarflokkarnir. Það er flutt af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hér hefur komið fram að með þessum vinnubrögðum er á vissan hátt brotin hefð eða a.m.k. góðar vinnureglur og siðvenjur sem hafa ríkt um stjórnarskrárbreytingar almennt, þ.e. að þær séu unnar og undirbúnar í samkomulagi þingflokka á Alþingi hverju sinni og að þar sé ekki flanað að breytingum eða lagðar fram óunnar eða lítt unnar tillögur eins og hér er verið að gera. Það hefur verið hyllst til að ná víðtæku samkomulagi um grundvallarbreytingar, um breytingar á stjórnarskránni, og þá frekar verið gætt íhaldssemi í þeim efnum til að fara þar ekki fram með ósætti.

Sú sátt er rofin með þessu frumvarpi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og verða það að teljast afar óábyrg vinnubrögð, ekki síst af því að hér hefur starfað stjórnarskrárnefnd sem allir þingflokkar hafa átt aðild að og skilaði einmitt áliti nú á dögunum. Það verður því að teljast furðulegt að ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, skuli undir lok kjörtímabilsins fara fram hjá stjórnarskrárnefnd með einhliða tillögur eins og hér er um að ræða.

Það hefur ekki gefist vel að mínu mati, herra forseti, þegar stjórnarskránni hefur verið breytt í ósætti eða ekki verið fullt samkomulag um breytingarnar. Ég minni á kjördæmabreytingarnar sem gerðar voru á árunum 1999–2000 þar sem veruleg breyting var gerð bæði á kjördæmaskipaninni og á fulltrúum þingmanna í einstöku kjördæmum og í framhaldi af því á kosningalögum. Við sjáum hvaða staða er í Reykjavík, Reykjavík var skipt upp í tvö kjördæmi til að uppfylla þau áform sem þar voru keyrð í gegn og nú vita menn ekki hvernig á að skipta áfram, hvort það á að skipta eftir götum eða póstnúmerum þegar verið er að skipta Reykjavík í kjördæmi á grundvelli þeirra kjördæmabreytinga sem gerðar voru fyrir átta árum.

Önnur kjördæmi lenda í því að þar fækkar kannski um einn þingmann við hverjar kosningar vegna breytinganna sem settar voru inn. Breytingar á stjórnarskránni sem gerðar eru í ósátt eru sjaldnast mjög gáfulegar, eins og kjördæmabreytingin sannar. Nægir að benda á eins og ég gat um áðan hvernig staðan er í Reykjavík, menn vita ekki hvort á að skipta Reykjavíkurkjördæmi eftir pósthólfi 105 eða 108, 101 eða 103. Það sjá allir hvers konar rugl þetta er.

Hér kemur þá líka frumvarp til breytingar á stjórnarskránni sem er að vísu ekki unnið með sama hætti og þá en er samt lagt fram í ósætti. Það er líka deilt um það hér, og bæði lærðum og leikum sýnist sitt hvað um það hvort með þessu frumvarpi sé einhverju breytt — eða ekki, hvort aðeins sé verið að staðfesta það ástand sem er á eignarhaldi og nýtingu á auðlindum landsins eða hvort verið er að gera á þessu grundvallarstjórnskipulegar breytingar. Þarna eru þá uppi sjónarmið sem eru andstæð hvort öðru. Það bendir mjög ákveðið til og sýnir hversu léleg vinnubrögð eru að baki þessu frumvarpi að um leið og það kemur fram skuli skapast um það deilur hvort það sé gagnslaust, hvort það aðeins staðfesti óbreytt ástand eða hvort það hafi einhver réttarfarsleg áhrif. Það er ljóst að þegar frumvarpið fer frá Alþingi inn í nefnd bíður þeirrar nefndar mikið starf við að reyna að skilja hvað þetta frumvarp felur í sér.

Ég ætla aðeins að víkja að efnisatriðunum. Í 1. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign.“

Það hefur komið fram í umræðunni að menn eru alls ekkert á einu máli um hvað séu náttúruauðlindir. Í álitsgerð svokallaðrar auðlindanefndar sem skilaði skýrslu í september árið 2000 er reynt að nálgast umræðuefnið, nálgast það hvað séu náttúruauðlindir. Með leyfi forseta ætla ég að vitna til þess hvað þar er verið að tala um. Þar er talað um land, land til beitar, land til nýbygginga, ýmis hlunnindi, jarðorkulindir, jarðveg, land til urðunar, námur, friðlýst land, skordýr, land til skógræktar, land til útivistar, útsýni, landslagsheildir o.fl., villt dýr og örverur. Allt eru þetta náttúruauðlindir sem eru í landi.

Náttúruauðlindir í ferskvatni: fiskar sem villt dýr, ómengað vatn, vatnsból, vatnsföll, útivist og örverur.

Í hafi: efni á hafsbotni og neðan hans, hafið sem viðtaki úrgangs, nytjastofnar, siglingaleiðir, sjávarföll, útivist.

Í andrúmsloftinu: hreint loft, andrúmsloft sem viðtaki útblásturs, rafbylgjur, vindorka.

Í lífríkinu: vistkerfi, stofnar, erfðaefni.

Það er býsna víðtækt sem í þessari álitsgerð er talið upp sem náttúruauðlindir. Ég held að það gæti orðið mjög fróðlegt að heyra með hvaða hætti sérfræðingar og leikir og lærðir sem munu koma á fund þeirrar nefndar sem fær þetta til umfjöllunar koma til með að skilgreina hugtakið „náttúruauðlind“. Ég býst við að það sé jafnvel bara einstaklingsbundið hvernig slíkt gildishlaðið hugtak er skilgreint. Það er a.m.k. ekki auðskýrt og ekki er gerð tilraun í þessu frumvarpi til að skýra hvaða merking er lögð í orðið náttúruauðlind.

Áfram stendur hér þó skrifað, ég byrja frá byrjun, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. gr.“ — þ.e. í stjórnarskránni þar sem vikið er að eignarréttarákvæðunum.

Nú er það svo með þessar náttúruauðlindir að ef maður skoðar þær er ekki svo þægilegt að sjá hvernig hægt er að taka til réttinda einstaklinga hvað það varðar og kem ég að því aðeins síðar.

Áfram stendur svo í greininni:

„Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.“

Það er svo sem gott og blessað, en ber okkur engin önnur skylda gagnvart þessum náttúruauðlindum, hinum fjölbreyttu náttúruauðlindum, en bara að nýta þær? Er þetta alfarið nýtingarstjórnarskrá, nýtingarstjórnarskráratriði sem þarna er verið að setja? Að mínu mati er fráleitt að nálgast þessa umræðu með þeim hætti. Þetta er gamaldags nálgun og alls ekki í takt við nútímaafstöðu til náttúruauðlindarinnar þar sem allar þjóðir leggja nú áherslu á að náttúrauðlindir séu, ef þær eru nýttar, nýttar á sjálfbæran hátt og það sé lagt til grundvallar í allri umgengni við náttúruauðlindirnar. Að mínu viti hefði átt að standa þarna til viðbótar, ef það væri í takt við nútímaáherslur, nútímaskilning, kvaðir og skyldur: Ber að varðveita þær eða vernda þær og nýta á sjálfbæran hátt. Þessi ofboðslega harða nýtingarárátta og nýtingarnálgun, með fullri virðingu fyrir þörfinni á að nýta náttúruauðlindina, er alls ekki í takt við þær nútímakröfur sem við gerum til umgengni við lífríkið hér á jörðu.

Áfram segir í greininni:

„Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.“

Það er fráleitt, finnst mér, og mikið ábyrgðarleysi að ætla að fara að keyra inn svona nýtingareignarréttarákvæði eins og þetta án þess að samtímis séu þá tekin inn öll almenn sjónarmið sem lúta að umhverfisrétti og sjálfstæðum rétti náttúrunnar. Við erum bara gestir á Hótel Jörð og höfum þess vegna mjög takmarkaðan rétt til að slá undir eignarréttarákvæðum eign okkar á náttúruauðlindirnar. Árátta stjórnvalda hefur verið mjög mikil í því að láta sameiginlegar eignir og auðlindir af hendi, annaðhvort gegn gjaldi eða ekki. Við erum t.d. nýbúin að fjalla hér um frumvarp um vatnsréttindi til handa Búrfellsvirkjun, til Landsvirkjunar, sem sömu hæstv. ráðherrum, ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, datt í hug. Þeir fluttu hér frumvarp um að afhenda Landsvirkjun land og vatn úr þjóðlendum. Í dag munu þeir reyndar hafa séð að sér eða séð hversu heimskulegt þetta var, eða treystu sér ekki lengur til að halda málinu inni og drógu það til baka. Hér voru fluttar hástemmdar ræður, ég minnist ræðu fyrrverandi forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar sem var nærri því trúarræða þegar hann flutti ræðuna fyrir um ári um það að gefa Landsvirkjun land inni í þjóðlendum í kringum Búrfellsvirkjun. Það er oft lítil trygging í þessu.

Hér hefur verið rætt um að þetta frumvarp sé bara að festa í sessi núverandi kerfi. Ef það er svo held ég að það hljóti að vera mjög óréttlátt og það er ekki hægt að styðja það. Við höfum rætt hér um fiskveiðiauðlindina og það hvernig fiskveiðiheimildirnar hafa færst yfir á hendur örfárra manna og farið er að umgangast þær sem eignir. Þá eru það útgerðaraðilar eða eigendur fiskveiðiheimilda sem hafa fengið að koma fram sem slíkir. Íbúar sjávarbyggðanna sem hafa ekki hvað síst átt þátt í að gefa þessum náttúruauðlindum verðgildi standa uppi gjörsamlega réttlausir. Ég mundi halda að það stríddi gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og að jafnræðisreglan væri ofar þessu eignarréttarákvæði sem verið er að höfða til hér varðandi nýtingu á fiskveiðiheimildunum. Ef þetta frumvarp hér á að leiða til þess að festa núverandi kerfi í sessi, þ.e. að svipta íbúa sjávarbyggðanna algjörlega aðgengi að réttindum til að nýta auðlindirnar fyrir ströndum landsins, er þetta vont frumvarp. Þá er útilokað að styðja slíkt. Frekar ættum við að vinna að því að þessar náttúruauðlindir yrðu verndaðar og nýttar í þágu íbúanna og við gætum spurt hvort frumbyggjaréttur strandhéraðanna varðandi náttúruauðlindir, hvort sem er til lands eða sjávar, ætti ekki að fara inn í stjórnarskrá í stað þessarar hörðu eignarréttarnálgunar sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins leggur svona mikla áherslu á.

Í lokin á þessari stuttu ræðu minni vil ég bara velta því upp hvað það getur oft og tíðum verið lítil vörn fyrir náttúruna að vera í forsjá aðila sem hugsa fyrst og fremst um harða nýtingu og markaðssetningu hennar. Það getur farið svo að þeir aðilar selji eða láti hana af hendi. Í mínum huga á náttúran sig sjálf og við höfum fyrst og fremst umgengnisrétt við hana. Okkur ber skylda til að umgangast hana af virðingu og með sjálfbærum hætti. Mér er t.d. minnisstætt þegar ég heyrði einu sinni sögu um að í borginni Athens í Bandaríkjunum væri gríðarlega stórt óaldursgreint eikartré sem er einkennistákn byggðarinnar. Það átti að fara að leggja hraðbraut einmitt þar sem þetta tré stóð. Hópur íbúa mótmælti og sagði að tréð ætti að vera þarna, þetta væri einkennistákn þeirra og það mætti ekki höggva. En ekkert stoðaði, hraðbrautin varð að koma þarna. Íbúarnir fóru þá að fletta upp í gömlum skjölum og fundu að landeigandinn sem átti landið á sínum tíma hafði óttast að eitthvað slíkt gæti beðið þessa mikla trés þannig að hann hafði mörgum áratugum áður þinglýst þeim gjörningi að tréð ætti sig sjálft og að enginn mætti hrófla við því, engin tímabundin jarðnesk mannvera mætti hrófla við þessu náttúruvætti. Þeir sem vildu leggja hraðbrautina leituðu til dómstóla um það hvort þetta gæti staðist. Jú, það stóðst, það var þinglýstur gjörningur að tréð ætti sig sjálft og þá hafði enginn með það að ráðast gegn því.

Ætli það sé ekki skylda okkar að fara að huga að því að náttúran á sig sjálf og á að njóta þess réttar? Okkur ber skylda til þess að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika náttúrunnar. Þegar hér eru lögð til svona hörð eignarréttar- og nýtingarákvæði finnst mér vanta það meginsjónarmið sem ætti að standa í stjórnarskránni, þ.e. umhverfisréttinn, rétt náttúrunnar, rétt hins líffræðilega fjölbreytileika, hinn eilífa rétt hins síkvika lífs sem enginn getur slegið eign sinni á en okkur ber skylda til að varðveita, umgangast og verja.

Þess vegna ofbýður mér þessi orðanálgun hér þar sem eingöngu er rætt um hvernig megi nýta náttúruauðlindir þjóðarinnar, alfarið hin harða nýtingarstefna og hugsað um einstaklingsvarinn rétt til að nýta auðlindirnar. Auðvitað er nauðsynlegt að nýta þær en okkur ber líka skylda til að setja verndun og sjálfbæra umgengni við hana jafnhátt nýtingarhugsjóninni.

Herra forseti. Ég vildi bara drepa á það að mér finnst þessi nálgun í umræðunni og nálgun um náttúruauðlindirnar (Forseti hringir.) ekki vera sæmandi nútímanum.