133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:45]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Fiskveiðistjórn snýst líka um fólk. Hún snýst ekki bara um það að stýra einhverjum veiðum á fiski. Við erum að tala um lífsafkomu fólks. Þegar hv. þingmaður talar um einhverja sátt, við hverja er hann að sættast? Er hann að sættast við fólkið sem er svipt afkomumöguleikum sínum og heilu landsvæðunum eins og við urðum vitni að, og fólk á Vestfjörðum benti á að ríkisvaldið hefði með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi svipt það atvinnuréttinum? Það hefur ekki í rauninni tök á því að afla sér viðurværis á þeim stöðum, m.a. vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru búnir að gera atvinnuréttinn að söluvöru.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þegar hann talar um sátt hvort hann eigi við þetta fólk, t.d. fólkið á Bakkafirði sem hefur verið svipt atvinnuréttinum og húseignir þess verðfelldar eins og ágætur maður benti á í sjónvarpsviðtali í gær, Kristinn Pétursson, fyrrverandi þingmaður.

Um hvaða sátt er hv. þingmaður að tala? Er hann að tala um sátt Sjálfstæðisflokksins við nokkra aðila innan LÍÚ? Eða er hann að tala um sátt við þjóðina? Eða er Sjálfstæðisflokknum algerlega sama um að sætta þjóðina og þau ólíku sjónarmið sem uppi eru? Fólkið í landinu sættir sig ekkert við þetta. Það sættir sig ekkert við það að heilu landshlutarnir séu lagðir í eyði af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.