133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:39]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra vitnaði ekki í nein gögn en sagði að sjávarútvegurinn væri að keppa á alþjóðlegum markaði. Öll sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi keppa á alþjóðlegum markaði, þannig er það og þetta eru engin rök í málinu, alls engin, a.m.k. ekki veigamikil.

Síðan hvað varðar þessi fyrirtæki, sum hver, sem hafa farið í gegnum margar hagræðingar, svo sem Grandi, skulda tvöfalda veltu sína. Ég mundi segja að það væri ekki gott ástand, alls ekki. Vegna þess að hæstv. ráðherra fór út um víðan völl og vitnaði til ástands sjávarútvegs í öðrum löndum vil ég benda hæstv. ráðherra á að það gengur bara afskaplega vel í Færeyjum að reka sjávarútvegsfyrirtæki þar og einnig gengur það ágætlega í Noregi. Þetta eru engin rök. Upphafleg markmið kerfisins voru að byggja upp fiskstofnana og tryggja byggð í landinu, (Forseti hringir.) hvorugt þessara markmiða hefur gengið eftir þannig að kerfið hlýtur að fá falleinkunn, (Forseti hringir.) a.m.k. á forsendum kerfisins sjálfs.