133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hengdi sig mikið í stjórnarandstöðuna og gerði mikið með það að stjórnarandstaðan hlyti að veita þessu frumvarpi, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, brautargengi á grundvelli yfirlýsinga sinna frá því á dögunum. Hér er um mikinn misskilning eða mistúlkun að ræða af hálfu hæstv. ráðherra. Það sem stjórnarandstaðan þarna gerði var að hún bauð ríkisstjórninni upp á samstarf. Því tilboði var ekki tekið, það var ekkert með það gert. Formenn stjórnarflokkanna sömdu sitt eigið frumvarp og hentu því inn á þing án samráðs við aðra.

Þegar vísað er í að efniviður sé til staðar til að ljúka málinu er vitnað beint í tillögur auðlindanefndar og vinnuhóp stjórnarskrárnefndar. Þetta frumvarp byggir ekki á því. Það víkur í mjög veigamiklum atriðum einmitt frá framsetningu auðlindanefndar árið 2000 því að hér er ekkert minnst á að auðlindina megi ekki selja, hér er ekkert minnst á að úthlutun verði að vera tímabundin og vel afmörkuð og (Forseti hringir.) henni megi breyta. Það er m.a. það sem við erum að gagnrýna og gerir þetta frumvarp mjög tortryggilegt.