133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Þó að Framsóknarflokkurinn sé merkilegur var það ekki þannig að bara hafi verið talað til hans. Hæstv. heilbrigðisráðherra virðist ekki frekar en hæstv. forsætisráðherra hafa lesið yfirlýsinguna. Það er algerlega skýrt að þar er talað um samstarf, það er boðið upp á samstarf — það var ekki þegið — og það er talað um ríkisstjórnina. Það er vitnað í þann efnislega grundvöll sem fólginn er í niðurstöðu auðlindanefndar á sínum tíma sem hér er ekkert gert með og frumvarpið byggir ekkert á, og í öðru lagi þá í álit vinnuhóps stjórnarskrárnefndar sem heldur er ekkert gert með. Þvert á móti er í mjög veigamiklum atriðum vikið frá þessu.

Það er algerlega ljóst að það sem hugur manna í stjórnarandstöðunni stendur til er að setja raunverulegt sameignarákvæði á þessum auðlindum inn í stjórnarskrá en ekki eitthvert brelluákvæði sem kannski verður þegar upp er staðið túlkað jafnvel þannig að það veiki frekar en hitt þó þann sameignaranda sem er t.d. í lögunum um stjórn fiskveiða, lögum um eignarhald ríkisins á hafsbotninum, (Forseti hringir.) í þjóðlendulögunum (Forseti hringir.) og því sem er til að styðjast við í lögum um sameign þjóðarinnar á tilteknum auðlindum.