133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

afstaða VG til virkjunar í neðri hluta Þjórsár – stækkun álversins í Straumsvík.

[10:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hinn 31. mars ganga Hafnfirðingar til atkvæðagreiðslu um stækkun álversins í Straumsvík. Stofnuð hafa verið grasrótarsamtök, Sól í Straumi, sem beita sér gegn þessum áformum álhringsins. Á hinn bóginn hafa einnig verið stofnuð samtök fyrir hinu öndverða, einstaklingar og hópar sem eru fylgjandi því að álverinu verði heimiluð stækkun beita sér fyrir þeim málstað. Um þetta er ekkert nema gott að segja. Þetta er gangur lýðræðisins.

En það er aðkoma Alcans, auðhringsins, sem ég vil gera að umræðuefni. Ég vitna í grein sem í dag birtist í Morgunpósti VG eftir Gest Svavarsson. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sá sögulegi atburður hefur nefnilega orðið á Íslandi, sennilega í fyrsta sinn, að purkunarlaust er notað fjármagn erlendra auðhringa til þess að hafa áhrif á viðhorf kjósenda. Athæfið er fullkomlega siðlaust og skammarlegt. Hvar annars staðar finnast sambærileg dæmi þess að þeir sem eiga hagsmuna að gæta troði sér — með góðu eða illu — inn í samfélagið eins og Alcan gerir nú í Hafnarfirði?“

Og Gestur Svavarsson minnir á að á Alþingi hafi verið til umfjöllunar nýjar reglur sem setja skorður við aðkomu fyrirtækja að starfsemi stjórnmálaflokka til að koma í veg fyrir að skoðanir og ákvarðanir verði keyptar. Ég vitna í lokaorð greinargerðar Gests Svavarssonar þar sem segir, með leyfi forseta.

„Ég fer þess vegna fram á að Alcan fari út úr kosningabaráttunni, dragi sig til baka með alla sína milljarða — og láti Hafnfirðinga í friði.“

Nú spyr ég: Ætlar einhver þeirra sem nú verma ráðherrabekkina á Íslandi að tala fyrir hönd lýðræðisins? (Forseti hringir.) Vilja þeir setja valdi auðsins skorður?