133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

afstaða VG til virkjunar í neðri hluta Þjórsár – stækkun álversins í Straumsvík.

[10:43]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Heldur þóttu mér aumar skýringar hv. þm. Steingríms Jóhanns Sigfússonar. Þetta er það sem á góðri íslensku mundi heita yfirklór og hét það í minni heimasveit. Enn undarlegra þótti mér þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson kom í ræðustól og fór að ræða um stækkun Ísals, maðurinn sem m.a. lýsti því hér yfir í atkvæðaskýringu, með leyfi hæstv. forseta:

„Það verður svo ekki fram hjá því horft að þessi framkvæmd mun skipta miklu máli fyrir atvinnulíf þjóðarinnar og atvinnustigið í landinu.“

Þetta sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson þegar hann studdi síðast stækkun Ísals. En liðleskjan hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat ekki einu sinni greitt atkvæði á móti, hann sat hjá. Menn verða að hafa það í huga að vinstri grænir úti um allt land styðja stóriðjuuppbyggingu og virkjanir. Vinstri grænir á Akranesi vilja stóriðju á Grundartanga, Vinstri grænir á Akureyri vilja stóriðju á Húsavík, Vinstri grænir á Húsavík vilja stóriðju á Húsavík og Vinstri grænir í Reykjavík voru fremstir í flokki við að koma upp Hellisheiðarvirkjun í nágrenni höfuðborgarinnar. Þar fór fremstur í flokki gjaldkeri Vinstri grænna, einn af framkvæmdastjórnarmönnum Vinstri grænna sem sat í stjórn Orkuveitunnar, Tryggvi Friðjónsson.

Eins og ég sagði áðan eru tvískinnungurinn og hræsnin sem fram koma í málflutningi vinstri grænna þegar vikið er að stóriðju- og virkjunarmálum forkastanleg. Það er það sem menn verða að hafa í huga núna þegar forsætisráðherraefni stóra kaffibrandarans, hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon, reynir að klóra yfir breyttar skýringar sínar og breytta afstöðu sína til virkjana í neðri hluta Þjórsár. (KolH: Nú … framsókn…)