133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

afstaða VG til virkjunar í neðri hluta Þjórsár -- stækkun álversins í Straumsvík.

[10:45]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skýrir sjálfur út afstöðu sína, ég ætla ekki að vera svo djarfur að taka þátt í þeim leik. Hið hlálega í þessu máli er hins vegar það að hér ryðjast upp í stólinn brandarakallar úr Framsóknarflokknum, flokki sem að stefnu til verðskuldar heitið rekald, flokki sem nýverið skilgreinir hugtakið þjóðareign þannig að það sé skynsamleg hagnýting náttúruauðlinda á borð við fiðurfé og sauðfé, að þeim flokki, hækju íhaldsins í 16 ár, skuli þykja það aðfinnsluvert hjá öðrum að skipta um skoðun. (Gripið fram í: … í fjögur ár.)