133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[10:56]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að hafa mörg orð um frumvarpið sem ég mæli hér fyrir. Þetta er fyrst og fremst tæknilegs eðlis og tengist breytingunum á virðisaukaskatti sem lækkaði úr 24% í 7% á matvælum og ýmsum vörum eins og þekkt er orðið. Lækkun á álagningu virðisaukaskatts á matvæli hefur áhrif á rekstrargrundvöll Endurvinnslunnar hf. og leiðir til þess að félagið verður af umtalsverðum tekjum, en Endurvinnslan er það fyrirtæki sem heldur utan um umbúðagjald af einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur.

Í fyrsta lagi er lagt á svokallað skilagjald sem nú er 8,04 kr. án virðisaukaskatts á hverja umbúðaeiningu og til viðbótar því er lagt á umsýslugjald sem standa á undir rekstri kerfisins og er upphæð gjaldsins mismunandi eftir umbúðategundum. Fjárhæð umsýslugjaldsins er einnig án virðisaukaskatts. Endurvinnslan hf. fær greitt í gegnum ríkisbókhaldið framangreind gjöld sem innheimt eru í tolli eða hjá innlendum framleiðendum auk virðisaukaskattsins. Þegar lögin voru sett var virðisaukaskatturinn fremur nýr og aðrar starfsreglur giltu þá um greiðslur.

Skilagjald á einnota umbúðir var fram til 1. mars sl. 10,00 kr. og skiptist þannig að skilagjald án virðisaukaskatts voru áðurnefndar 8,04 kr. og virðisaukaskatturinn 1,96 kr. Lækkun virðisaukaskatts á matvæli hefur í för með sér umtalsverða tekjuskerðingu fyrir Endurvinnsluna hf. sem felst einkum í því að ef skilagjald verður áfram 8,04 kr. mun innheimt skilagjald af einnota umbúðum af öðrum drykkjum en áfengum drykkjum vera 8,60 kr. í stað 10,00 kr. Skilagjald af umbúðum áfengra drykkja verður áfram 10,00 kr. Breyting á virðisaukaskatti á matvæli hefur jafnframt áhrif á uppreikning umsýslugjalds þar sem fjárhæðir þess eru einnig án virðisaukaskatts og tekjur Endurvinnslunnar hf. af umsýslugjaldi eru þóknun ásamt virðisaukaskatti. Umsýslugjald er grunnforsenda rekstrartekna félagsins. Í ljósi þessa er lagt til í frumvarpi þessu að breyting verði gerð á lögunum til að leiðrétta þau áhrif sem lækkunin hefur.

Framangreindar breytingar eiga ekki að leiða til raunhækkunar á innheimtum gjöldum heldur að tryggja að Endurvinnslan hf. fái það sama og hún fékk fyrir lækkun virðisaukaskattsins. Í frumvarpinu er miðað við hvað gjöldin þurfa að hækka miðað við 7% virðisaukaskatt. Vert er að benda á að virðisaukaskattur lækkar ekki á áfengi en um 15% af þeim umbúðum sem koma inn eru flöskur undan áfengi. Að mati Endurvinnslunnar hf. og fjármálaráðuneytisins er illframkvæmanlegt að setja mismunandi gjald á vöru eftir því hvort umbúðirnar bera 7% virðisaukaskatt eða 24%. Því er lagt til að sama gjald verði lagt á allar drykkjarvöruumbúðir og að Endurvinnslan hf. fái alltaf 7% af virðisaukaskattinum en í þeim tilvikum sem hann sé í raun 24% fari afgangurinn í ríkissjóð. Með breytingunum er Endurvinnslunni hf. gert fært að standa áfram undir lögbundnu skilagjaldi að upphæð 10,00 kr. sem það var hækkað upp í nýverið en við það jukust skil á einnota drykkjarvöruumbúðum.

Lagt er til að lögin taki þegar gildi.

Eins og ég nefndi, virðulegi forseti, er ekki um neina stefnubreytingu að ræða hvað þetta varðar. Hins vegar er mikilvægt að þær breytingar sem voru á virðisaukaskatti verði ekki til þess að það dragi úr skilum á einnota umbúðum og þess vegna er frumvarpið fram komið, það er til þess að sama upphæð fari í það gjald áfram eins og nú er til þess að sá árangur sem við höfum náð við að ná inn einnota umbúðum viðhaldist og helst aukist. Eins og kemur fram í greinargerðinni var skilagjaldið nýlega hækkað um í 10,00 kr. sem jók skilin mikið á einnota umbúðum. Ég þarf ekki að fara yfir það með þingheimi um mikilvægi þess að við náum árangri á því sviði. Ég hef trú á því að það sé góð eining innan þingsins að við viðhöldum því og gerum helst betur.

Virðulegi forseti. Þetta er fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Þetta er ein af afleiðingunum af þeim góðu virðisaukaskattslækkunum og er til þess fallið að koma í veg fyrir að það verði til þess að tekjur af endurvinnslu á einnota umbúðum minnki.