133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýddi á mál hv. þingmanns. Mér þótti það giska flókið og skildi ekki allt sem hann sagði. Mig langar hins vegar til að varpa þeirri spurningu til formanns umhverfisnefndar hvernig stendur á því að nefndin flytur þetta. Eins og ég skil málið er það partur af þeim breytingum sem ráðast verður í vegna breytinga á virðisaukaskatti. Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt hér fram ýmiss konar þingmál til þess að ná fram markmiðum sem hún lýsti. Þýðir þetta að menn hafi gleymt þessu máli og þetta sé til marks um að heimavinna hæstv. ríkisstjórnar hafi ekki verið nægilega vel unnin? Hér hleypur umhverfisnefnd til þess á lokaspretti þingsins miðað við starfsáætlun og flytur þetta mál. Hvað veldur því? Af hverju er það ekki ráðherrann sem flytur málið?

Sömuleiðis langar mig til að spyrja út í eitt tæknilegt atriði sem hv. þingmaður nefndi hér og hugsanlega hef ég misskilið hann, ég tek það fram, en ég skildi það svo að í einhverjum tilvikum væri um að ræða stöðu þar sem er 24,5% virðisaukaskattur en sá hluti sem nemur 7% fer í gegnum endurvinnsluna í tengslum við skilagjöld en afgangurinn rennur í ríkissjóð. Getur hv. þingmaður skýrt út fyrir mér hvað í þessu felst? Er þarna um að ræða einhvers konar dulda skatttöku sem tengist þessu máli sem verður þá hugsanlega að liggja ljósar fyrir? Eins og ég sagði er hugsanlegt að ég hafi misskilið hv. þingmann og ekki heyrt í þeim klið sem var hérna áðan. Hv. þingmaður getur kannski skýrt þetta út fyrir mér. Í öllu falli vildi ég gjarnan fá að vita af hverju málið er flutt af nefndinni en ekki af fagráðherranum.