133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:03]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta er eitt af þeim málum sem mikilvægt er að koma í gegn. Ég þekki ekki sögu þess af hverju það er nefndin sem gerir það, en þegar kemur að úrvinnslugjöldum og öðru slíku þá hefur umhverfisnefndin séð um það og t.d. er núna mál strax á eftir þessu um úrvinnslugjald, þ.e. breytingar á því, og við höfum flutt ansi margar breytingar á því í gegnum tíðina.

Varðandi spurninguna um 24,5% og 7% kemur fram í greinargerðinni að að mati Endurvinnslunnar hf. og fjármálaráðuneytisins er illframkvæmanlegt að setja mismunandi gjald á vöru eftir því hvort umbúðirnar bera 7% virðisaukaskatt eða 24,5%. Því er lagt til að sama gjald verði lagt á allar drykkjarvöruumbúðir og að Endurvinnslan fái allt að 7% af virðisaukaskattinum en í þeim tilfellum þegar hann er í raun 24,5% þá fari afgangurinn í ríkissjóð.

Með breytingunum er Endurvinnslunni hf. síðan gert kleift að standa áfram undir lögbundnu skilagjaldi að upphæð 10 kr. sem var hækkað nýverið en við það jukust skil á einnota drykkjarvöruumbúðum. Ef þetta skýrir málið eitthvað er það gott, annars er þingmanninum velkomið að spyrja frekar út í þetta. Mér sýnist samt sem áður að allt málið sé þannig að það beri keim af því að þetta fyrirkomulag sé nokkuð í anda eldri tíma. Þar getur hv. þm. Össur Skarphéðinsson kannski útskýrt og farið yfir það með þingheimi hvernig þetta kom til á sínum tíma. Ég hef trú á því að hann hafi komið að þessu á einhverjum tímapunkti.