133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:07]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gleðst yfir því að heyra að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi verið fylgjandi einkavæðingu. Ég vona að það verði sem oftast og sem mest á þingferli hans og ferli hans í stjórnmálum og þakka honum fyrir að vekja athygli á því.

Ég sé ekkert sem mælir — (ÖS: Þú ert að horfa á manninn sem einkavæddi Síldarvinnsluna á …) Virðulegi forseti. Ég vissi að hv. þingmaður væri stór í þinglegu samhengi en hér vekur hann athygli á því að hann er auðvitað miklu stærri en sá sem hér stendur hafði einu sinni hugsað sér.

Hvað sem því líður er ekkert sem mælir gegn því að ef eitthvað er óljóst, hvort sem er í máli mínu eða kemur fram í greinargerðinni, að við skoðum þetta mál og ef málefnalegar ábendingar sem við þurfum að fara betur yfir koma fram er auðvitað sjálfsagt að gera það og við höfum öll tök á því eins og þingreyndur maður þekkir mjög vel, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þannig að ég hvet hann til, ef það er eitthvað í þessu máli sem þarf að skoða betur, að benda á það. Við höfum tækifæri til þess og við vinnum hratt í þinginu eins og allir þekkja þegar svo ber undir. Að sjálfsögðu, ef eitthvað þannig kemur fram að við þurfum að skoða það og setja það í nefndina, þá höfum við tækifæri til þess. Það er ágætisfólk í hv. umhverfisnefnd sem er alveg fært um að fara yfir það og hefur farið í mörg svona mál í gegnum tíðina.