133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:09]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta frumvarp flytur umhverfisnefnd. Það er rétt sem fram kom í umræðum áðan að það er óvenjulegt að nefndir flytji frumvarp af sjálfsdáðum. Þó hefur verið gripið til þess í neyðartilvikum og þannig stendur á að við í umhverfisnefnd höfum sýnt Úrvinnslusjóði og málefnum hans sérstakan skilning.

Það er þannig að yfirleitt þarf á hverju hausti, stundum nokkrum sinnum á þingi, að flytja frumvörp sem varða þennan sjóð og þessi gjöld vegna þess að skatt má ekki setja á nema með lögum. Við höfum tekið þá afstöðu að fylgja þessu ákvæði stjórnarskrárinnar til hins ýtrasta og ekki gefið neinn afslátt af því þótt menn hafi farið fram á slíkt. En það þýðir að fara þarf í gegnum þennan formlega gang mörgum sinnum.

Síðara frumvarpið sem við flytjum í dag, það næsta, þar sem breytt er lögum um úrvinnslugjald, er mjög sígilt dæmi um slíkt frumvarp. Þannig stendur á því að þar urðu einhver mistök í úrvinnslu hjá, að ég hygg, Umhverfissjóði, án þess að ég ætli að kasta sökinni beint þangað. Þau mistök eru að minnsta kosti á okkar ábyrgð í umhverfisnefnd og hlýðir þess vegna að við flytjum það frumvarp.

Ég verð hins vegar að segja að ég er nokkuð efins um það frumvarp sem við ræðum nú, hvort rétt var hjá umhverfisnefnd að fallast á að flytja það sjálf. Þetta er ekki frumvarp sem kemur til af mistökum eða leiðréttingum á þessum flóknu talnadálkum í lögunum sem alltaf þarf að breyta. Af hverju þarf alltaf að gera það? Jú, það er vegna þess að Úrvinnslusjóði er ekki ætlað að færa fé til ríkissjóðs heldur er honum ætlað annað hlutverk, að útfæra mengunarbóta- eða mengunargreiðsluregluna með þeim hætti að þeir borgi sem eru ábyrgir fyrir menguninni, að þeir borgi það sem þeim ber en ekki meira en það. Þess vegna er sífellt flökt á þessum útreikningum, þó minna og minna með hverju ári, þar sem menn öðlast meiri reynslu og verða færari við að reikna þetta út.

Það sem hér er um að ræða er hins vegar annað. Eins og ég segi, ég held að það hafi kannski ekki verið rétt hjá okkur í umhverfisnefnd að fallast á að flytja þetta frumvarp sjálf því hér er um mistök ríkisstjórnarinnar að ræða. Mistök ríkisstjórnarinnar við að koma fram þeim skattbreytingum sem hún sjálf lagði til. Ekki er eingöngu um að ræða mistök ríkisstjórnarinnar heldur líka mistök á þinginu, ekki er gefinn tími til almennilegra vinnubragða, forseti, eins og vera ætti á þjóðþingi, heldur þarf að hlaupa fram og aftur. Á dagskrá dagsins í dag, 13. mars, eru t.d. um 50 mál að ég hygg, (Gripið fram í: 53.) 53 mál er sagt hér í salnum, þar af aðeins eitt atkvæðagreiðslumál þannig að við erum í fyrsta máli af 52 sem forseti og félagar hans í þinginu ætla að afgreiða í dag. Það er mikil afgreiðsla.

Þessi mál eru með ýmsum hætti. Þau eru komin úr nefndum flest nema þau tvö sem nefnd flytur. Þau eru samkomulagsmál sem hefði verið hægt að semja við stjórnarandstöðuna um að afgreiða hratt og vel ef aðrir þættir þinghaldsins fram undan lægju fyrir. En þarna eru líka ágreiningsmál, meira að segja mál þar sem stjórnarandstöðunni hefur ekki unnist tími til að setja fram minnihlutaálit eða flytja breytingartillögur. Enginn fyrirvari er gefinn, forseti, um slík mál. Ekki er látið af því vita að þetta sé á dagskrá á morgun eða sé fram undan. Því er bara þrýst á dagskrána í því trausti að menn af einhverri óskiljanlegri ábyrgðartilfinningu standi sína plikt. Þessi vinnubrögð eru ámælisverð og ég fordæmi þau. Ég vil nota svo sterkt orð.

Ég er hér á fyrsta kjörtímabili, hvort þau verða fleiri, það vitum við ekki. En ég hef undrast margt á þessu fyrsta kjörtímabili þótt ég teldi mig hafa vitað töluvert um störf Alþingis. Þessi vinnubrögð eru á þann veg að þau eru fyrir neðan allar hellur. Þau tvö frumvörp sem við flytjum nú eru talandi, lýsandi, æpandi dæmi um það hvernig þingið starfar og hver virðing er borin fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar og ráðherranna sem hér sitja.

Ég tel, eftir þær örlitlu umræður sem hafa farið fram, að þetta frumvarp verði að koma aftur í nefnd. Við verðum að fá um það umsagnir eða að minnsta kosti fá gesti á fund. Þar ber mest á þeirri skattheimtu sem fer fram í frumvarpinu. Það er undarlegt, og ég biðst afsökunar á því að tala þannig um eigið frumvarp, en það fór með einhverjum hætti fram hjá mér að hér væri frumvarp beinlínis um aukna skattheimtu í ríkissjóð þar sem ekki á að gera mun á 7% virðisaukaskatti og 24% virðisaukaskatti, af tæknilegum ástæðum. Afgangurinn á að renna í ríkissjóð.

Vegna þess að nefndin var véluð til að flytja þetta frumvarp, forseti, fær frumvarpið ekki umsögn hjá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins eins og þurft hefði og við verðum að fá slíka umsögn í nefndinni. Því þessi skattheimta, þótt ekki virðist hún vera stórkostleg, er auðvitað þannig að þingið getur ekki leyft sér að leggja á skatt — það veit hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson líka og er ekki ánægjulegt fyrir hann út af fyrir sig, miðað við málflutning hans á árum áður, að standa að slíku frumvarpi — án þess að gera sér grein fyrir því hversu mikil sú skattheimta er. Hvert á sá skattur að renna? Rennur hann með einhverjum hætti aftur í Úrvinnslusjóð eða rennur hann aftur, og þá með hvaða hætti, til almennings? Þessu er ósvarað í þeirri greinargerð sem ég er hér talinn standa að. Ég tel að við verðum ósköp einfaldlega að bæta um betur, umhverfisnefndarmenn, og fá þetta á hreint til þess að við getum mætt spurningum og gagnrýni í 2. og 3. umr. um málið.

Ég verð svo að segja almennt um umbúðir og úrvinnslumál, að þrátt fyrir allt hefur þessi breyting, þetta skref til nýs umhverfishagkerfis á Íslandi, gengið vel. Ár frá ári hafa bæst við í þetta kerfi umbúðir utan af ýmsum vörum og ég tel að það sé gott fólk sem stendur að þessu. Fagfólk, sem hefur sótt sér þekkingu og reynslu þangað sem hún fæst best. Það má hins vegar ekki stöðvast í þessu og þó við höfum ekki gert það á þessu þingi, þar sem mikið hefur verið að gera, eins og ég sagði áðan, forseti, þá eigum við auðvitað að halda áfram.

Í fréttum um daginn var sagt að söfnun rafhlaðna gengi ákaflega illa. En hún á sér enga hagræna hvata og fer eingöngu þannig fram að hægt er að setja á stöku staði, ég hygg á bensínstöðvar fyrst og fremst, rafhlöður án þess að fá nokkurt endurgjald fyrir þær. Það er sem sé ekkert úrvinnslugjald á þeim. Þetta trassa menn ósköp einfaldlega. Skil á rafhlöðum, ætli ársnotkun á rafhlöðum fylli ekki þennan gamla sal, eru sáralítil. En rafhlöður, eins og við vitum, geyma spilliefni, eiturefni, þó mismikið eftir því hvers eðlis þær eru. En engin þeirra er eðli málsins samkvæmt laus við slíkt. Ég spurði um þetta í fyrri umræðu um úrvinnslugjald en fékk þá engin svör frá þeim ráðherra sem flutti frumvarpið að því sinni. En það er rétt að hafa í huga að þetta er eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að sinna á næsta þingi eða næstu þingum.

Við höfum líka rætt mikið um dagblöð. Ég furða mig á því að ekkert skuli hafa gerst meira í dagblaðamálunum. Það er sjálfsagt að taka upp þá umræðu og hér er ágætistækifæri til þess við umræður um ekki óskylda hluti. Það þarf að hafa stjórn í því efni og frumkvæði sveitarfélaganna í því að safna dagblöðum virðist ekki ganga, ekki skila sér. Hver heimilismaður á hvaða einasta heimili á landinu, þó sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, kannast við þann vanda sem dagblöð og auglýsingapésar af öllu tagi skapa. Daglega koma miklir hlaðar af blöðum, sérstaklega í fjölbýlishús eins og ég bý í. Og morgunverk þess sem fyrstur kemur niður er að krjúpa fyrir framan útidyrnar og hirða þetta allt saman í bunka. Morgunblaðið, og stundum kemur eitthvert fasteignablað með því án þess að óskað hafi verið eftir, það er þó áskriftarblað. Fréttablaðið í sjö eintökum í mínu húsi og Blaðið í sjö eintökum. Síðan koma aukablöð með þessu og svo auglýsingabæklingar um hitt og þetta sem hægt er að kaupa í Kringlunni og Smáralind. Þetta verkefni reiða menn nú fúslega fram á Laugavegi 49, hver um sig, eftir því hver er fyrstur úr húsi eða niður að dyrum. En síðan hleðst þetta upp við hlið þessara útidyra þangað til fórnfúsir menn taka að sér að rimpa þetta saman og fara með það út í tunnu, flestir. En þó eru nokkrir íbúar í þessu húsi sem sinna skyldu sinni af kostgæfni sem borgarar jarðar og sæta færis að setja þetta í þá sérstöku söfnunarkassa sem sveitarfélag mitt þó hefur til reiðu, að vísu í nokkurri fjarlægð frá húsinu.

Þetta er saga sem næstum allir þekkja. Og ríkisvaldið og frammistaða þess í þessu efni er nánast engin. Það er engu af að hrósa. Hvers vegna? Þá fara menn að flækja málin með þátttöku sveitarfélaganna í verkefninu. En vera kann að hin raunverulega ástæða séu einhvers konar hagsmunir, hugsanlega blaðaútgefenda, sem standa á móti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðna samúð með hagsmunum blaðaútgefenda og tímarita, vegna þess að ekki er einungis um venjuleg viðskipti að ræða heldur líka drjúgan þátt af menningar- og menntalífi þjóðarinnar, fullkomlega ómissandi. Á litlu málsvæði eins og við Íslendingar myndum verður almannavaldið að sjá svo um að vel sé búið að útgáfu allri, ekki síst dagblöðum og tímaritum.

Við höfum sem betur fer haft tækifæri til þess á kjörtímabilinu, forseti, að fara í gegnum þá umræðu, einkum þó í hinu fræga máli sem félagar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar stóðu fyrir og forustumenn hans á þeim tíma og reyndar sumir enn, og kallað var fjölmiðlamálið. Það hafðist þó út úr fjölmiðlamálinu að nokkuð rækileg umræða náðist um gildi fjölmiðlanna allra, þar á meðal dagblaða og tímarita, fyrir íslenska menningu og fyrir íslenskt þjóðlíf, sem ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á. Að minnsta kosti ekki þeir sem stóðu í þessum stóli og mæltu fyrir álögum, miðstýrðu ríkiskerfi nánast, sem átti að sveipa alla fjölmiðlana í.

Það lagaðist reyndar seinna, forseti, með síðara fjölmiðlafrumvarpinu sem svo er kallað. En af því er það að frétta að vegna hins undarlega vinnufyrirkomulags og skipulags á þinginu, sem á sér aðra rótina að minnsta kosti í þjösnagangi og virðingarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart því starfi sem hér er unnið, hefur það frumvarp aðeins verið tekið fyrir í menntamálanefnd í frumvinnu eða forvinnu, með þeim hætti að fulltrúar þess hæstv. ráðherra sem flutt hefur frumvarpið hafa komið á fund nefndarinnar og fjallað um það. En síðan höfum við þurft að leggja það til hliðar til þess að fjalla um önnur mál, sem þóttu kannski ekki brýnni en að minnsta kosti aðeins einfaldari, og höfum ekki komist í þetta mál í vetur, sem er nú þinginu ekki til sóma og sérstaklega á þessu kjörtímabili, sem þegar frá líður verður kannski ekki síst minnst fyrir hinar miklu og harðvítugu deilur um fjölmiðlafrumvarpið sem stóðu hér á fyrsta og öðru þingi þess.

Enn fremur höfum við talað töluvert um Úrvinnslusjóðinn og rætt um það hvernig heppilegt stjórnarfyrirkomulag væri á honum. Ég held að það sé best að ég endurtaki það hér, áður en þessari ræðu lýkur, að ég hef í engu breytt um skoðun á því að stjórnarfyrirkomulag það sem sett var upp í byrjun sé ekki heppilegt. Neytendur hljóti að eiga einhvers konar aðkomu að þessum sjóði og það sé eðlilegt að fleiri en aðeins fulltrúar atvinnurekenda og ríkisins sitji þar. Ég tel eðlilegt að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar sitji þar í stjórn eða að minnsta kosti í námunda við stjórnina. En ég skal hins vegar viðurkenna að stjórnin, sú sem nú situr, hefur staðið sig vel og þegar um það er að ræða þá rekur engar nauður til að breyta því kerfi. Ég vil hins vegar halda því vakandi að þetta er einn af göllunum á Úrvinnslusjóðnum.

Forseti. Ég vil fyrir hönd nefndarinnar biðjast afsökunar á því að þetta plagg sem geymir frumvarp til laga, það sem við erum að ræða um, og greinargerð með því, er í raun og veru ekki sómasamlegt að stafsetningu. Þar eru þrjár villur sem ég rekst á bara við fyrstu yfirsýn. Það ber allt þess merki, bæði efnislega og að frágangi, að vera flutt í miklu hasti og miklum flýti og ég tel það mjög miður að það skuli vera svo.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi. Ég tel að nefndin þurfi að skoða frumvarpið aftur, leiðrétta ásláttarvillurnar í því en ekki síður fara vandlegar yfir það en við gáfum okkur tíma til í upphafi. Þar er sérstaklega um að ræða þá skattheimtu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom sínu glögga auga á að felst í frumvarpinu. Við þurfum að rannsaka hve mikil hún er og hvort ekki er hægt að komast hjá henni. Ef það er ekki hægt þurfum við líka að athuga hvert þetta á að renna þannig að ekki séu brotnar þær grunnreglur sem þetta kerfi allt saman byggist á. Ég á hér síðari ræðu hugsanlega og mun þá halda áfram að fjalla um frumvarpið en tel að að sinni hafi ég sagt nóg.