133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:30]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við fréttum af því fyrst í fjölmiðlum fyrir 4–5 vikum að til stæði að sameina Fjöltækniskóla Íslands og Iðnskólann í Reykjavík undir heitinu 2T Tækniskólinn og stofnað um hann einkahlutafélag. Hugmyndirnar hafa verið kynntar af skólastjórum skólanna og þeir gefið út bækling til að sýna á spilin sem eru til staðar. Í honum segir að Fjöltækniskóli Íslands og Iðnskólinn ætli að sameinast í nýjum og öflugum skóla, þetta verði einkarekið félag með faglega sjálfstæðum skólum atvinnugreina, þarna kemur fram að skólinn eigi að vera í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði og að bakhjarlar hans séu Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök íslenskra kaupskipaútgerða, Samorka, Samtök iðnaðarins og Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík.

Nú vil ég, virðulegi forseti, í upphafi taka það fram að auðvitað geta margir kostir verið samfara því að sameina Iðnskólann í Reykjavík og Fjöltækniskólann þó að ég telji það ekki vera neitt náttúrulögmál í sjálfu sér að tvær kröftugar stofnanir þurfi endilega að vera sterkari sameinaðar. Hvað liggur hér að baki? Með hvaða hætti er t.d. gert ráð fyrir að hinir nýlega einkavæddu Stýrimannaskóli og Vélskóli Íslands renni saman við stærsta opinbera framhaldsskóla þjóðarinnar, Iðnskólann í Reykjavík? Hvers vegna kemur hugmyndin upp og hvenær er gert ráð fyrir að breytingarnar gangi í garð? Hver verður svo aðkoma Alþingis að þessum breytingum?

Með sameiningu Iðnskólans og Fjöltækniskólans sjá menn fyrir sér að til verði öflugur starfsmenntaskóli með yfir 2.000 nemendur. Er hinum eftirsóknarverða ávinningi m.a. lýst í grein eftir Loft Árnason, stjórnarmann í Samtökum iðnaðarins, í Morgunblaðinu 24. febrúar sl. Þar talar Loftur um öflugan skóla atvinnulífsins, að forsendur verði fyrir meira námsframboði og kennsluaðferðir í samræmi við kröfur og þarfir nútímafyrirtækja. Hann talar um sameiningu sambærilegra deilda og samþættingu á ólíku námi en í lok greinarinnar segir hann að rekstrarbreyting af þessu tagi gefi tækifæri til „endurnýjunar hugarfarsins“. Þarna liggur, virðulegur forseti, að mínu mati mikil skammsýni og jafnvel misskilningur sem ég tel hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnina ala á.

Ég fæ ekki annað séð en að einmitt allt þetta sé hægt að gera innan hins sameinaða skóla þó að hann fái ekki einkennisstafina ehf. aftan við nafn sitt, bara ef vilji er fyrir hendi og sett er það fjármagn í reksturinn sem til þarf. Ef þau öflugu samtök sem að þessum skóla ætla að standa vilja leggja metnaðarfullum menntamálayfirvöldum til fjármuni sem ríkisstjórnin telur sig ekki geta reitt fram án þeirra og ef þessi samtök vilja í alvöru eiga meiri aðkomu að iðnnámi en þau hafa í dag fæ ég ekki betur séð en að um það megi gera samkomulag við menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytið. Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja með hvaða hætti þessi ríkisstjórn hefur vanrækt framhaldsskólana síðustu árin og ekki síst brugðist ákalli starfsmenntaskólanna um aukna fjármuni og aukið vægi í menntakerfinu.

Virðulegur forseti. Ehf. er ekki forsenda fyrir því að áhugasamt starfsfólk fái tækifæri til að eiga hlutdeild í breytingum sem leiða til ávinnings fyrir nemendur, starfsfólk og atvinnulíf. Ehf. er ekki forsenda fyrir því að góðar hugmyndir fæðist eða fái brautargengi í námsframboði Iðnskólans í Reykjavík. Til þess að virkja áhugasamt starfsfólk og áhugasama nemendur sem vilja hafa áhrif á vinnustaðinn sinn þarf framsýn og flink stjórnvöld, stjórnvöld sem taka öflugar menntastofnanir að sér og sinna þeim í stað þess að koma þeim af sér með öllum ráðum yfir til einkaaðila sem í fyllingu tímans munu vart geta staðist freistinguna að leggja skólagjöld á nemendur og verðleggja hvert viðvik sem nemendur þurfa að fá skólann til að leggja af mörkum. Slíkt ráðslag viljum við vinstri græn forðast og við leggjum því áherslu á öflugt og fjölbreytt opinbert skólakerfi þar sem frumkvæði og hugmyndir fólks fá notið sín og gert er vel við fólk í kjörum og aðbúnaði.

Hæstv. forseti. Forsvarsmenn skólanna tveggja og talsmenn ehf.-unar vilja meira. Þeir tala fyrir því að stofnaður verði svokallaður fagháskóli sem bjóði upp á háskólanám í tilteknum iðn- og starfstengdum greinum. Hér er um metnaðarfulla hugmynd að ræða sem ég sé ekki annað en að verðskuldi að koma til alvarlegrar skoðunar á Alþingi Íslendinga því að þjóðkjörna fulltrúa á Alþingi þarf til að samþykkja fjárútlát til slíkra verkefna. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari spurningunni um það með hvaða hætti hún sjái slíkan fagháskóla verða til. Hver verða tengsl væntanlegs fagháskóla og hins nýja sameinaða skóla og hvernig tengist hugmyndin um stofnun fagháskóla aðkomu einkaaðila að rekstri Iðnskólans í Reykjavík? Jafnvel þótt Iðnskólinn í Reykjavík verði einkavæddur undir hatti hins einkavædda (Forseti hringir.) Fjöltækniskóla, er þá ekki fullt tilefni til að yfirvöld menntamála skoði hvort stofna megi fagháskóla sem hluta af hinu opinbera skólakerfi?