133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:50]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Síðan ég settist hér inn á þing fyrir tæpum fjórum árum hafa menn mikið rætt um mikilvægi þess að efla starfs- og verknám og það hefur sannarlega margt verið gert í þeim málaflokki. Nú nýverið kom út ný skýrsla sem ber yfirskriftina „Nýr framhaldsskóli, skýrsla starfsnámsnefndar“, þar sem eru metnaðarfullar tillögur fyrir framtíð starfsnámsins þar sem m.a. er lagt til að aðgreining náms í framhaldsskólum í bóknám og starfsnám verði afnumin og starfsnáminu lyft á hærri stall.

Nú eru komnar fram hugmyndir um að sameina tvo verknámsskóla, Iðnskólann í Reykjavík og Fjöltækniskólann. Ég held að þetta sé akkúrat það sem menn eigi að gera til þess að efla þessar námsgreinar og efla starfsnámið. Ég held að það sem starfsnámið þurfi sé öflugur, metnaðarfullur starfsmenntaskóli og það er það sem menn stefna að. Ég held að það sé akkúrat það sem starfsnámið þurfi, tengingu við atvinnulífið, eins og áform eru uppi um varðandi þennan nýja skóla.

Ég er þess vegna ákaflega hlynntur hugmyndum um að sameina þessa skóla og spurningin sem menn þurfa fyrst og fremst að spyrja sig og taka afstöðu til er: Á að sameina þessa skóla og efla starfsnámið eða ekki? Fókusinn hjá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er hins vegar á allt aðra hluti. Þeim finnst það vera aukaatriði en rekstrarformið aðalatriðið. Þau mega ekki sjá einkahlutafélag utan um skólastofnanir eða annan rekstur. En þetta eru allt saman aukaatriði.

Ég get ekki séð að það hafi þvælst mikið fyrir Háskólanum í Reykjavík, Verslunarskólanum eða Fjöltækniskólanum að vera reknir á hlutafélagaformi. Aðalatriðið er, hvað ætlum við að fá út úr þessu? Annaðhvort vilja menn efla starfsnámið eða ekki. Ég vil gera það og ég skora á hæstv. menntamálaráðherra (Forseti hringir.) að hraða áformum sínum um að sameina þessa skóla.