133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

úrvinnslugjald.

694. mál
[14:05]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni umhverfisnefndar fyrir þessa skemmtilegu lesningu. Ég hef sennilega ekki í annan tíma brosað jafnmikið undir ræðuhöldum hv. þingmanns. En ég tek undir með honum. Auðvitað er rétt að það er ekki einfalt mál að fara í þessi lög og það væri ekki heiðarlegt af mér að segja: Hvað, gastu ekki séð þetta í fyrsta skipti sem við tókum þetta í gegn? Ég vil bara segja það að löggjöf af þessu tagi er auðvitað afar flókin og þess vegna skiptir verulegu máli að hæstv. ráðherrar undirbúi löggjöf af þessu tagi betur en hv. umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, gerði í þessu tilfelli.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem við lendum í nákvæmlega þessu sama, að þegar við breytum þeirri löggjöf sem hér um ræðir fer það í handaskolum og leiðrétta þarf það skömmu síðar. Þetta er því fyrst og fremst brýning til hæstv. ráðherra og embættismanna í ráðuneytunum. Það er ekki forsvaranlegt að láta löggjöf af þessu tagi birtast hér einum eða tveimur dögum fyrir jólahlé og ætlast til þess í alvöru, eins og gert var hér, að það verði bara afgreitt einn, tveir og þrír í gegnum þingið. Það tókst ekki. Við þurftum að afgreiða þetta í janúar. Gerðum það þá með dágóðu hraði og við vorum ekkert að teygja málin í umhverfisnefnd. Við lítum á þetta svipuðum augum. Það er auðvitað nauðsynlegt að koma þeim breytingum sem um er að ræða í gegn. En það verður að gera þá kröfu að málin séu undirbúin betur en raun ber vitni.

Það eru í raun og veru alfa og omega alls í lagasetningu að málin séu vel undirbúin. Því kynnast nú þingmenn þessa dagana afar vel. Mér skilst að stjórnlaganefndin okkar sem á að fara yfir það frumvarp sem mælt var fyrir hér í gær, frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskránni, hafi fengið á klukkutímafundi í hádeginu í hendur möppur með 800 blaðsíðna lesefni. Mér skilst að það hljóti að verða að afgreiða það mál gegnum þingið á morgun eða hinn ef starfsáætlun á að standast. Þetta eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð.