133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

úrvinnslugjald.

694. mál
[14:12]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valdimari Leó Friðrikssyni fyrir fyrirspurn hans (Gripið fram í.) og áhuga hans á málinu. Til að halda þessu til haga var alltaf vitað að við þyrftum að koma með þessi mál oft hér inn. Þetta er eins og nafnið gefur til kynna, þetta er svona sambærilegt eins og tollnúmer. Þau eru mjög mörg og það þótti bara öruggara af því hér er í rauninni um gjöld að ræða, að löggjafinn mundi afgreiða þau í hvert skipti sem einhver breyting yrði. Það er auðvitað óheppilegt ef þarf að gera það oft, en þó var alveg ljóst að það þyrfti að vera.

Hv. þingmaður spyr um sjóðinn, hvernig hann standi o.s.frv. Skemmst er frá því að segja að hann stendur mjög vel sem hefur gert það að verkum að við höfum verið að lækka gjöld mjög mikið á þessu kjörtímabili. Raunar er hugmyndin sú í örstuttu máli að hver flokkur standi undir sér, ef þannig má að orði komast, t.d. bifreiðarnar, úrvinnslugjaldið af þeim eða á einstaka vöruflokkum.

Það þýðir að þegar verður sjóðamyndun, sem hefur gerst í mörgum tilfellum, þá hefur löggjafinn eða nefndin beitt sér fyrir því eftir uppáskrift frá Úrvinnslusjóði að viðkomandi gjald er lækkað. Það hefur svona verið almenna reglan þó líka sé dæmi þess að menn hafa þurft að hækka það á ákveðnum flokkum, því hugmyndin er ekki sú að millifært sé innan sjóðsins heldur verði hver flokkur að standa undir sínu, ef þannig má að orði komast.

Ef þetta hefur svarað spurningu hv. þm. þingmanns, virðulegi forseti, er það vel, annars svara ég öðrum ef þetta er ekki nógu skýrt eða um fleiri spurningar er að ræða.