133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:26]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef þessi tilraun sem við erum að gera hér gengur vel og það verður góð sala á þessum bílum er ég alveg sannfærður um að bensínstöðvum sem afgreiða metangas mun fjölga og það mun þá verða í samræmi við það hversu margar bifreiðar eru á svæðunum hvort sú þjónusta er veitt þar eða ekki.

Varðandi hins vegar pallbílana þá eru þeir flokkaðir á þennan hátt vegna þess að þeir eru almennt taldir vera atvinnutæki (Gripið fram í.) og notaðir að miklu leyti í atvinnuskyni þó að auðvitað sé erfitt að banna mönnum að nota slíkar bifreiðar í einhverjum öðrum tilgangi. Ég sé ekkert rosalega mikið af þeim í miðbæjarakstri alla vega og hef heyrt á þeim sem vinnu sinnar vegna þurfa að nota þessa bíla að þeir séu betur hæfir í langkeyrslur en í innanbæjarsnatt. Enda þótt þau sjónarmið sem hv. þingmaður nefndi hér hafi komið upp hafa þau sjónarmið sem ég nefndi í upphafi varðandi hlutverk þessara bifreiða orðið ofan á og ef við færum að breyta þessari skattlagningu værum við að hafa íþyngjandi áhrif á þá starfsemi sem slíkar bifreiðar eru almennt notaðar til.