133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:27]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að fram er komið þingmál um að breyta vörugjaldi á bifreiðar sem nýta metangas og minni á að Norðurlandaráð hefur sent leiðbeiningar til aðildarlandanna um að fara þessa leið, að minnka vörugjöld á bifreiðar sem nota vistvænt eldsneyti.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að þarna er eingöngu um að ræða bifreiðar sem geta tekið eldsneyti á höfuðborgarsvæðinu, á einni stöð, og minni á það í leiðinni að höfuðborgarbúar vilja líka getað keyrt út á land og taka eldsneyti þar. Er hæstv. ráðherra tilbúinn að setja inn í þetta frumvarp ákvæði sem snýr að tvinnbílunum? Þó að þeir noti hefðbundið eldsneyti menga þeir helmingi minna, þeir búa til sitt rafmagn sjálfir og nýtast alls staðar á landinu og líka í langferðir. Ég hef reynslu af tvinnbíl í tvö ár og þetta eru einstaklega vistvænir bílar.

Í umræðum um umhverfismál og aðgerðir vegna loftslagsbreytinga af völdum gróðurhúsalofttegunda, hvöttu sérfræðingar sem töluðu á Norðurlandaráðsþinginu Íslendinga til að fara þá leið að auka notkun tvinnbíla og grípa til ráðstafana eins og þeirra sem hér er verið að leggja til og snúa að metanbílunum. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn að svara þessu ákalli frá sérfræðingum í loftslagsmálum og taka tvinnbílana hér inn? Því að þessir sérfræðingar sögðu að þetta væri ein áhrifaríkasta og árangursríkasta leiðin sem hægt væri að fara á Íslandi.