133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:33]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vissi nú ekki að ég hefði verið að gera lítið úr einum eða einum, hvorki sérfræðingum né öðrum og er ástæðulaust fyrir hv. þingmann að túlka ummæli mín á þann hátt. Ekki tók ég eftir því sjálfur að ég væri úrillur eða stúrinn. Hv. þingmaður ætti bara að sjá mig þegar ég er virkilega úrillur og stúrinn. Hún hefði kannski gaman af því að sjá það.

Eins og ég er nú þegar búinn að fara yfir hérna tvisvar ef ekki þrisvar í umræðunni, þá eru tvinnbílarnir annars eðlis tæknilega en metangasbílarnir. (ÁRJ: Þeir eru vistvænir engu að síður.) Þeir eru engu að síður vistvænir. Það er alveg rétt. Þeir eru hins vegar miklum mun líkari hinum hefðbundnu bifreiðum sem við þekkjum og nota í grunninn sama eldsneytið þó að þeir bæði framleiði og noti rafmagn líka, til að spara eldsneytið.

En þessi virkni á sér líka sérstaklega stað í þéttbýlinu þar sem mikið er um að það sé bremsað og stoppað og krafturinn sem þá verður til við mótstöðuna nýtist til að framleiða rafmagnið. Þetta nýtist síður á langferðum, þá er raunverulega um notkun á hefðbundnum eldsneytisgjöfum að ræða.

Þannig að við erum einfaldlega að tala um bifreiðar sem eru annars eðlis en um ræðir í frumvarpinu. Þær eru allra góðra gjalda verðar og alls ekki ólíklegt að þær muni koma fram í því sem við erum að vinna þótt á annan hátt verði.

Það er eins og það sé svolítil lenska hjá stjórnarandstöðunni að ef komið er fram með eitthvað gott og jákvætt, þá er svona tekið undir það en það þarf (Forseti hringir.) alltaf að koma með eitthvað annað líka.