133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er sannarlega ástæða til að staldra við og skoða ofan í kjölinn trúverðugleika umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar. Því við höfum orðið vitni að því að það hafa verið sett fram markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og við verðum vör við það í aðdraganda kosninga að Sjálfstæðisflokkurinn reynir ítrekað að gefa sig út fyrir að vera að fara inn á nýja braut í þessum efnum, í umhverfismálunum. Fálkinn birtist grænn á forsíðu Morgunblaðsins og menn spyrja hvort málningin haldi vatni. Það er því alveg eðlilegt að hæstv. ráðherra sé spurður út í það hversu djúpt þessi stefnubreyting sjálfstæðismanna risti.

Þetta frumvarp er til marks um að stefnubreyting sé í farvatninu. En ég tek undir það með þeim þingmönnum sem hér hafa komið í andsvar við hæstv. ráðherra að það er auðvitað ekki farið alla leið og það er mjög miður og óskiljanleg sú tregða sem kemur í ljós í orðum hæstv. ráðherra varðandi það að vilja ekki heimila að þessi ívilnun gildi fyrir allar bifreiðar sem spara okkur losun í þeim mæli sem t.d. tvinnbílarnir gera og aðrir bílar, aðrar bifreiðar sem nota vistvæna orkugjafa.

Samkvæmt gildandi reglum þá er í gildi bráðabirgðaákvæði í lögum sem gerir það heimilt að fella niður 240 þús. kr. af vörugjaldi bifreiða, ef ég man rétt, sem eru rafbílar, þ.e. þetta gildir eingöngu um rafbílana. Nú hristir nú hæstv. ráðherra höfuðið. En það er til ívilnum í vörugjaldi vegna þeirra bíla sem taldir eru hafa lítil sem engin áhrif á umhverfið í útblæstri. Ég hefði talið að sú ívilnun hefði verið ástæða fyrir stærri skref í þessum efnum. Og þess vegna hefði ég viljað sjá að frumvarpið sem hér er talað fyrir næði yfir allt það sem upp á vantar.

Ég lýsi því líka yfir að mér finnst nokkuð miður að hér skuli lýst yfir að þetta sé einungis tímabundin ráðstöfun og það ekki til mjög langs tíma því gert er ráð fyrir að hún gildi einungis fram til loka ársins 2008. Hvers vegna? Jú. Vegna þess að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að vera búin að ljúka heildarstefnu um skattlagningu bifreiða sem nýta umhverfisvæna orkugjafa fyrir árslok 2008.

Setjum nú svo að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Þá getum við og kjósendur sagt með réttu að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki staðið sig í umhverfismálum á því kjörtímabili sem nú er rétt liðið. Hins vegar getum við líka sagt og séð, og það er þá augljóst, að Sjálfstæðisflokkurinn, sem nú reynir að lofa bót og betrun fram í tímann, þ.e. með öðrum orðum að Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að ganga í augun á kjósendum vegna þess að kjósendur vilja fá útspil af þessu tagi nú í aðdraganda kosninga. Ég tel að skoða þurfi þennan frumvarpsflutning hæstv. ráðherra í því ljósi.

Auðvitað eru breytingarnar sem hér koma fram af hinu góða. Þær eiga eftir að verða til verulegra hagsbóta fyrir neytendur. Það kemur fram í fylgiskjali með frumvarpinu frá fjármálaráðuneytinu, fjárlagaskrifstofu, að það megi gera ráð fyrir að þessi undanþága leiði til þess að teknu tilliti til afleiddra áhrifa á virðisaukaskatt að lækkun á söluverði þeirra bifreiða sem hér um ræðir, sem sagt metangasbílana, verði á bilinu 25–30% eftir því hvort um er að ræða smábíla eða jeppa. Þannig að hér er um verulega hagsbót fyrir neytendur að ræða og í sjálfu sér sáralítil áhrif á ríkissjóð þegar á heildina er litið. Breyting af þessu tagi getur ekki talist útlátamikil fyrir ríkisstjórnina og ríkissjóð og þess vegna ætti ríkisstjórninni ekkert að vera að vanbúnaði og hefði reyndar fyrir löngu síðan átt að vera búin að marka sér ákveðna stefnu í þessum málum sem næði til allra bifreiða sem aka um á vistvænum orkugjöfum.

Á slíkum tíma vakningar í umhverfismálum og umræðu um áhrif útblásturs á heilsu manna og áhrif stórra bíla á loftgæði í borgum eða þéttbýli, þá hefði ég talið ástæðu til þess að taka hér stærri skref. Metangasið er afurð sem verður til vegna athafna mannanna. Metangas verður til, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, á öskuhaugum þar sem fólk lætur frá sér úrgang. Það er einungis á öskuhaugunum eða urðunarstaðnum á Álfsnesi sem til þessa hefur tekist að virkja metangasið eins og Sorpa hefur gert uppi á Álfsnesi. Það hefur verið gaman að fylgjast með því sem þar er gert og það starf hefur allt verið til fyrirmyndar.

Hins vegar vantar talsvert upp á að starfsmenn Sorpu nái að fanga allt það metangas sem fellur til á urðunarstaðnum þannig að enn má bæta verulega þá tækni sem þar um ræðir. Ég hefði talið að það hefði verið fullsæmandi fyrir hverja ríkisstjórn að taka þátt í því sem Sorpa hefur verið að gera þarna upp frá og tryggja að það mætti ná enn betri árangri en nú er varðandi það að fanga sem mest af því metangasi sem til fellur.

Einnig má varpa hérna fram spurningunni um það hvernig ástatt sé á öðrum urðunarstöðum því metangasið verður til á þeim urðunarstöðum sem verið er að nota og reyndar þeim sem aflagðir eru. Þannig að það er spurning hvort ekki þurfi hér stefnumörkun í þeim efnum, frá ríkisstjórninni, á hvern hátt megi fanga metangasið frá öðrum urðunarstöðum en þeim sem er upp í Álfsnesi. Þá mundum við líka vera að horfa fram á það að fólk á landsbyggðinni, á öðrum landshornum en einungis á suðvesturhorninu, ætti þess kost á aka um á metanbílum.

Ég vil nota tækifærið, hæstv. forseti, í þessari umræðu og vekja athygli á frumvarpi sem ég hef lagt fram hér á Alþingi á þskj. 1044 en þar legg ég til breytingu á lögum þeim sem við erum að fjalla um hér, þ.e. lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fleiru, nr. 29/1993. Frumvarp mitt gengur út á það að stóru pallbílarnir, bensínhákarnir, eins og þeir voru nefndir í ræðu rétt áðan, njóti ekki þeirra ívilnana sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt í lög að þeir geri í dag.

Ég man ekki hvort síðasta breyting á þessum lögum sem ívilnaði pallbílum var gerð fyrir einum þremur, fjórum árum síðan. Þá var því mótmælt af okkur þingmönnum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að opnað yrði fyrir gríðarlegt flóð stórra bíla inn í umferðina, bíla sem menga meira en smáir bílar. Bíla sem spæna upp malbikið af mun meira afli en smærri bílar. Bíla sem í alla staði eru óæskilegir inn í almennri umferð.

Sjálfstæðisflokkurinn skellti skollaeyrum við þeim varnaðarorðum. Það hafa þeir gert allt til dagsins í dag. Enn bólar ekkert á neinum áformum Sjálfstæðisflokksins varðandi breytingar í þá veru sem ég legg til í frumvarpi mínu á þskj. 1044.

Nú háttar svo til að þingi er rétt að ljúka og það er auðvitað ljóst að ég kem ekki til með að ná þessu máli mínu inn í nefnd svo ég hyggst misnota aðstöðu mína hér í umræðum um þetta frumvarp hæstv. ráðherra sem varða sömu lög og gera í örfáum orðum grein fyrir því sem það innifelur.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að gerðar verði breytingar á 4. gr. laganna og varða breytingar skilgreiningu á stærð og þunga þeirra bifreiða sem njóta undanþágu frá fullu vörugjaldi. En það er svo að samkvæmt þessum lögum þá skal greiða vörugjald í ríkissjóð af ökutækjum sem eru skráningarskyld samkvæmt umferðarlögum og í 3. gr. er kveðið á um að gjald þetta sé ýmist 30% eða 45%, allt eftir sprengirými aflvélarinnar. Í 4. gr. laganna er svo mælt fyrir um undanþágur og eftirgjafir frá innheimtu gjaldsins. Þau sjónarmið sem búa að baki niðurfellingu eða lækkun gjalds eru einkum þau að það eigi að styðja við atvinnurekstur.

Virðulegi forseti. Þau sjónarmið skil ég. Og ég tel mjög mikilvægt að við stöndum vörð um atvinnureksturinn og ákveðin undanþága nái til atvinnurekstrarins. Jafnvel þótt það verði einhverjir einstaka bílar, eins og við sjáum t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem sveitarfélög, sérstaklega Reykjavík rekur í einhverjum tilfellum bíla sem eru af svona millistærð þar sem starfsmenn borgarinnar hafa tvær sætaraðir til að sitja í bílnum. Bílar af þessu tagi mundu að öllum líkindum þurfa að bera hærri vörugjöld en þeir gera í dag. Ég verð að segja að í mínum huga þá eru slíkir bílar það fáir að ég held að það sé ekki mikill skaði skeður í þeim efnum miðað við ávinninginn sem við fengjum af því að fá full vörugjöld aftur á stóru bílana, á pallbílana sem eru til einkanota.

Það hefur, eins og ég sagði áðan, borið á því í auknum mæli að slíkir stórir bílar séu í almennri umferð. Þótt hæstv. fjármálaráðherra segist ekki sjá mikið af þeim í miðbænum þá vil ég segja við hæstv. ráðherra, sem ég efa að sé jafnmikið á gangi í miðbænum og ég sem venjulega geng til vinnu úr vesturbænum og hingað í gegnum miðbæinn og sé mjög mikið af þeim, að ég ráðlegg hæstv. ráðherra að líta betur í kringum sig. Þeir eru hér á hverju strái.

Þessi ökutæki eru ýmist alveg undanþegin vörugjaldi eða bera einungis 13% vörugjald. Þetta er í hæsta máta óeðlilegt ef við meinum eitthvað með því sem við erum að setja hérna fram um stefnumörkun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það er því ekki að ófyrirsynju að það er ráðist á ríkisstjórnina og sagt að hún sé ótrúverðug í umhverfismálum meðan lög af því tagi sem ég hef lýst eru við lýði og þeim fæst ekki breytt.

Með frumvarpinu sem ég legg fram á þskj. 1044 geri ég ráð fyrir því að ökutæki sem njóti undanþágunnar séu þau ökutæki sem einungis eru notuð til vöruflutninga og komi þannig í veg fyrir að bifreiðar sem notaðar eru í almennum akstri verði fluttar inn á þessum lágu vörugjöldum.

Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið varðandi hagræna hvata í umhverfismálunum og skattalega stýringu í þeim efnum. Hér hafa verið sett lög um grænt bókhald og ríkisendurskoðun hefur sett fram græna endurskoðun á ríkisreikningi og ákveðnir kaflar í fjárlagafrumvarpinu hafa verið birtir, grænir kaflar, þ.e. um áhrif fjárlaganna beinlínis á umhverfið og umhverfismál. Í öllum þessum pappírum og allri þessari stefnumörkun er fjallað um hagræna hvata til þess að reyna að draga úr neikvæðum áhrifum gjörða mannanna á umhverfið.

Hér er dæmigert tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að beita hagrænum hvötum, til þess að stýra neyslu fólks inn á þær brautir sem hafa minni áhrif á umhverfið. Ég skil ekki að hæstv. ráðherra skuli ekki taka fagnandi því tækifæri og setja fram metnaðarfyllra mál en hann núna gerir.

Þess vegna bendi ég honum á frumvarp mitt og ef það mál sem hæstv. ráðherra er hér að tala fyrir nær í gegn á þessu þingi, á þeim tveimur dögum sem samkvæmt starfsáætlun lifa eftir af þingstörfum, þá væri nú ekkert úr vegi að leyfa þingmálinu mínu á þskj. 1044 að fljóta með. Ég hvet hæstv. ráðherra til að mæla með því að þær hugmyndir séu teknar upp í frumvarp hans í formi breytingartillagna frá nefndinni. Þannig væri hægt að taka stærra skref en gert er ráð fyrir í upprunalegu skjali hæstv. ráðherra.

Ég tel að átaks sé þörf í þessum efnum. Ég heyri það frá Bretlandi þar sem flokkar heyja nú kosningabaráttu að menn slást afar hart í grænu málunum og það er búið að setja upp mælistikur í fjölmiðlum um það hverjir bjóði nú best, hvort það séu frjálslyndir, Verkamannaflokkurinn eða íhaldsmennirnir, þeir keppast allir við að bjóða gull og græna skóga. Menn setja fram metnaðarfull markmið þar í landi um að það sé raunverulegur möguleiki að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um helming og jafnvel meira fyrir miðja þessa öld. Menn eru að reyna að átta sig á því í alvöru og eru með sérfræðinga í vinnu við það að sjá á hvern hátt slík markmið geti náðst. Sannleikurinn er auðvitað sá að það komast allir að sömu niðurstöðu í þeim efnum. Markmið af þessu tagi nást ekki nema með róttækum aðgerðum og þær beinast fyrst að samgöngumálunum.

Það mál til komið að ríkisstjórnin átti sig á því og vakni og sinni kalli tímans í þessum efnum og taki hér á málum af róttækari hætti og af meiri metnaði en mál hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir.

Það er spurning um hvort græni fálkinn ætlar að vera við lýði alla kosningabaráttuna eða hvort málningin vaskist af honum í fyrstu átökum eftir að við þingmenn og stjórnmálamenn förum að takast á þarna úti á akrinum þegar þing er farið heim og hinn eiginlegi kosningaslagur byrjar.

Ég vona að hv. formaður umhverfisnefndar hafi verið að hlusta á mál mitt því ég held að ég hafi hér lög að mæla og ég hvet hann til að styðja þær hugmyndir sem ég hef talað fyrir og ræða við hæstv. ráðherra sinn um að taka leiðsögn minni, að leyfa frumvarpinu mínu á þskj. 1044 að fljóta hérna með.

Stefnan Sjálfbær Norðurlönd var nefnd hér af hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, og það ekki að ófyrirsynju því ríkisstjórnin hefur í sjálfu sér skuldbundið sig til þess að fylgja þeirri hugmyndafræði sem Norðurlöndin hafa verið að setja fram á undanförnum árum, í nokkrum tölusettum liðum og þar eru samgöngumálin mjög ofarlega á baugi.

Íslenskir ráðherrar hafa undirritað þær hugmyndir sem þar eru til staðar og íslenskri þýðingu af þeim stefnumiðum hefur verið dreift. Þannig að íslenskri þjóð á að vera það alveg ljóst undir hvaða merki ríkisstjórn okkar og ráðherrar eru að gangast. Það er því ekki seinna vænna að þjóðin banki í bakið á ráðherrum sínum og rukki þá um greiðslur loforðanna og fylgist með og sjái til þess að stefnunni sem hægt er að undirrita á Norðurlöndunum sé framfylgt líka hér.

Menn geta gengið á undan með góðu fordæmi á Íslandi, í þessu landi þar sem við höfum það jafngott og raun ber vitni. Okkur er ekkert að vanbúnaði og sleifarlag eitt gerir það að verkum að ríkisstjórnin skuli draga lappirnar í þessum efnum. Ég hvet því hæstv. fjármálaráðherra til þess að fara nú í föt þeirra ráðherra sem hafa gengið lengst á Norðurlöndunum og þess vegna félaga sinna, pólitískra sálufélaga í Íhaldsflokknum í Bretlandi, og ganga með þeim þessa vegferð og fara af alvöru í aðgerðir sem geta dregið umtalsvert úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Við Íslendingar eigum sömu heimtingu og aðrar þjóðir á því að ríkisstjórnin leggi sitt af mörkum til að bæta hér loftgæði. Það getur hún gert á afdrifaríkan hátt með því að nýta sér hagræna hvata til bættra umhverfismála. Málið sem hæstv. ráðherra talar fyrir hér er af því tagi en það þarf að gera meira til þess að það dugi.