133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[15:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Úr því ég er farin að gleðja hv. þingmann ætla ég að gleðja hann meira. Vegna þess að ég var algerlega sammála honum varðandi Úlfljótsvatnsmálið frá fyrsta degi. Ég var ósátt við hvernig haldið var á því máli í Reykjavíkurlistanum og hv. þingmaður veit það alveg að á endanum voru það auðvitað Vinstri grænir sem studdu Sjálfstæðisflokkinn í því sem að lokum varð ofan á. Ég held að við getum alveg viðurkennt það þegar fólk er búið að opna augu sín og nær saman um málin, þá fæst oft farsæl niðurstaða. Það fékkst í því máli og ég fagna því. Ég skammast mín ekkert fyrir það að mitt fólk skipti þó um skoðun. Það kom til liðs á endanum. Þar var slysið ekki orðið.

En í heildina er þessi umræða um umhverfismál auðvitað þess eðlis að við erum að átta okkur á því að við þurfum að vera öll trúverðug í umhverfismálum, allir flokkarnir. Ég er ekki að slá mig hér til riddara umfram aðra. Ég er hins vegar stolt af því að vera í flokki sem var stofnaður fyrir átta árum og vildi keyra hin grænu sjónarmið inn í umræðuna á Íslandi. Mér finnst okkur hafa gengið vel. Ég fagna því þegar aðrir flokkar og aðrir stjórnmálamenn koma til liðs og leggjast á sveifina. Því að á endanum verður þetta auðvitað sameiginlegt markmið okkar allra og á endanum hljótum við að ná því að standa saman um hin róttæku skref sem við í því máli sem við ræðum höfum nú verið að brýna hæstv. fjármálaráðherra til að gera.