133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[15:42]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að óhætt sé að segja að þessi umræða hafi farið út um víðan völl. Sumt af því sem nefnt hefur verið er alls ekki ókunnugt en ég held að hv. þm. Kristjáni L. Möller sé kunnugt um að frá því að núverandi löggjöf var sett um bensín- og olíugjald hefur verð á dísilolíu á heimsmarkaði hækkað og verið hærra en jafnvel verð á bensíni sem fram að þeim tíma var mjög óvenjulegt. Um þetta hefur verið fjallað mjög víða ekki bara úr þessum ræðustóli heldur getur hv. þingmaður lesið um þetta í mörgum merkum greinum í tímaritum, bæði innlendum og erlendum. Það er meginskýringin á því að dísilolía hefur verið dýrari hér en menn ætluðu áður og hún hefði verið enn þá dýrari ef ekki hefði komið til sú lækkun á olíugjaldinu sem hann nefndi í ræðu sinni. Það er því ekki hægt að segja að stjórnvöld hafi ekki reynt að bregðast við stöðunni til að ná fram upprunalegum markmiðum.

Hvað varðar rangar tölur þá kannast ég ekki við að notaðar hafi verið rangar tölur í þessu sambandi. Ef hv. þingmaður er með þær verður hann að reyna að sýna mér fram á það á einhvern sannfærandi hátt, ég held samt að það sé sennilega betra að við gerum að einhvers staðar annars staðar og einhvern veginn öðruvísi en að hann þylji upp tölur úr þessum ræðustóli. Þessi umræða kemur reyndar harla lítið við því frumvarpi sem hér er til umræðu nema í hinum víðasta skilningi.