133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[16:02]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um að lækka vörugjald á metangasbílum þó að umræðan hafi snúist um flest annað. Vil ég benda hv. þingmönnum á að við erum á síðustu dögum þingsins og ef menn ætla að gera sér einhverja von um að frumvarpið verði afgreitt þurfa þeir að stytta mál sitt. Ég er formaður í þeirri nefnd sem þetta mál kemur til og ég mun allt gera sem ég get til að reyna að koma því í gegn.

Ný skýrsla, dökk skýrsla, um hitnun jarðar, sem segir til um það að 90% líkur séu á því að sú kenning sem hún byggir á sé rétt, og þá eru náttúrlega 10% líkur á því að hún sé röng, gefur okkur tilefni til að taka okkur tak í umhverfismálum og sérstaklega varðandi losun koldíoxíðs og metangass, sem er víst tuttugu sinnum skaðlegra, og gera allt til þess að reyna að hindra hitnun jarðar. Þetta frumvarp er liður í því. Ég vil líka benda á að menn geta framleitt olíur úr jurtum sem líka dregur úr mengun.

Frumvarpið gengur lengra en menn hafa talað um hér í dag því að það fellir ekki aðeins niður vörugjöld af metangasbifreiðum heldur afnemur það hámarkið sem var 240 þús. kr. á rafmagnsbíla og vetnisbíla en þetta á allt að gilda út árið 2008. Þá vona ég að menn hafi unnið frumvarp sem tekur á þessum málum í heild sinni, líka varðandi tvinnbíla og eins varðandi það að skipta skattlagningu á orku, brennsluorku, í tvennt, þ.e. að skattleggja mengunarþáttinn, sem þá gildir náttúrlega fyrir allar olíur, jafnt þær sem notaðar eru á skipum sem og bíla og flugvélar, og svo notkunarþáttinn, sem byggir á notkun á vegum sem er annar handleggur. Menn hafa í rauninni eingöngu notað notkunarþáttinn til þess að skattleggja brennsluolíur og þá aðallega brennsluolíu sem notuð er til að hreyfa farartæki.

Þessi skýrsla er hvati fyrir okkur til að reyna að vinna gegn þessum losunum og þar mundi ég vilja benda á ýmsar markaðslausnir eins og t.d. að taka upp losunarkvóta. Þó að ég sé ekki hlynntur því að stýra hegðun fólks þá er þvílík vá fyrir dyrum, ef þessi kenning reynist rétt, sem hefur áhrif á líf og dauða milljóna manna að við þurfum að gera ýmislegt til að vinna gegn því. Ég er hlynntur því að nota markaðslausnir og tel að alþjóðlegir kvótar sem verða væntanlega teknir upp muni vinna að því. Þetta getur verið hlutlaust gagnvart ríkissjóði þannig að hann innheimti annars vegar kvóta af orkugjöfum sem valda losun og þeir peningar verði síðan notaðir til að greiða niður eða styrkja t.d. skógrækt eða jarðrækt ýmiss konar, landgræðslu, en einnig til þess að örva vinnslu á metangasi og öðrum þeim þáttum sem minnka losun. Það er því verk að vinna á næstu tveimur árum, fyrir árslok 2008. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að vinna duglega að því og líka á hv. þingmenn, bæði þessa þings og þess þings sem kosið verður, að vinna að lagasetningu í þessu skyni.

Nokkuð hefur verið rætt um áhrif þessarar skýrslu og ég hygg að hún muni hafa mjög mikil áhrif á Íslandi, efnahagslega mikið í plús vegna þess að mengunarskattar á bensín og olíur muni hækka verð á mengunarlausum orkugjöfum mjög mikið í heiminum, þ.e. á raforku sem við Íslendingar framleiðum án mengunar. Það mun verða mikill þrýstingur á Íslendinga frá umhverfisverndarsamtökum, sterkum umhverfisverndasamtökum, frú forseti, sem munu krefjast þess að Íslendingar virki hvern einasta foss hér á landi. Ég hugsa að við munum þurfa að standa í ístaðinu til þess að verja þá fossa og þau landsvæði sem við viljum ekki virkja, t.d. Gullfoss og Dettifoss o.s.frv. sem ég get ekki hugsað mér að séu virkjaðir. En það mun koma krafa um það frá erlendum umhverfissamtökum, ef þessi kenning reynist rétt, að sem mest verði virkjað á Íslandi, líka með jarðvarma og þá bæði til þess að framleiða ál, sem ég mér finnst kannski komið nóg af, en einnig fyrir annan orkufrekan iðnað, eins og t.d. geymslu á gögnum og annað slíkt. Þetta mun svo hafa enn meiri áhrif á hækkun á orkufyrirtækjum á Íslandi sem eiga orkuna og vil ég minna þar á sölu ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja.

Ég ætla ekki að vera mjög langorður en ég má til með að tala um Sjálfstæðisflokkinn og umhverfismál því að sumir hafa reynt að láta líta þannig út eins og sá flokkur hafi ekki áhuga á umhverfismálum. Allir Íslendingar hafa áhuga á umhverfismálum, hver einasti. Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert undanskilinn því. Hann hefur meira að segja verið í fararbroddi á mjög mörgum sviðum, enda kannski eðlilegt sem stærsti flokkur landsins, t.d. stóð hann að grænu byltingunni í Reykjavík sem mikið var rætt um á sínum tíma. Hann er kominn með grænt bókhald og hann hefur líka staðið að umhverfisvænum virkjunum eins og Kárahnjúkum sem er mjög gott fyrir heimsbyggðina, frú forseti, að Kárahnjúkavirkjun komst í gagnið.

Það hefur að meira að segja sýnt sig, og ég hef reiknað það út, að eftir að Kárahnjúkavirkjun er komin í gagnið spara Íslendingar heimsbyggðinni meiri koldíoxíðmengun en þeir losa sjálfir með öllum sínum bílum, iðnaði, flugvélum og skipum, vegna þess að ál er framleitt á Íslandi án rafmagns sem framleitt er með brennsluefnum en u.þ.b. 28% af raforku í heiminum er framleitt með brennsluefnum, og sá sparnaður í losun hér á landi er meiri en allt það sem við losum sjálf.

Svo vil ég minna á að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, sem hæstv. umhverfisráðherra, lagði grunninn að því að Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því verið mjög mikið í fararbroddi í þessum efnum eins og hér hefur komið fram í umræðunni varðandi Orkuveitu Reykjavíkur.

Ég legg til að menn reyni að flýta þessu máli. Ég er því miður nú þegar búinn að tala of lengi en ég vonast til að þingmenn hv. styðji mig í því að vinna hratt að framgangi þessa máls í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.