133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[16:14]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að fagna því frumvarpi sem hér er til umræðu um breytingu á vörugjöldum af ökutækjum og eldsneyti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umsagnar og mun auðvitað reyna eins og hægt er á þeim skamma tíma sem er til stefnu að greiða fyrir málinu. En ég vil þó eins og margir aðrir sem hafa talað á undan mér leggja áherslu á að ég tel að þetta frumvarp gangi allt of skammt og það hefði átt að stíga miklu stærra skref en hér er gert, ekki síst í ljósi þeirrar miklu umræðu sem orðið hefur út af gróðurhúsaáhrifum og hve mikilvægt er að fara í aðgerðir sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda sem koma í veg fyrir þá sóun orku sem felst í að nýta ekki hagstæðari orkugjafa en við höfum gert og því eigum við að reyna að stuðla að því eins og kostur er og ég hefði því ætlað að þetta mál hefði gengið nokkuð lengra en raun ber vitni.

Við höfum fjallað um þessi mál áður í efnahags- og viðskiptanefnd. Það var fjallað um þetta á 125. löggjafarþingi, fyrir átta árum, og þá lögðum við í stjórnarandstöðunni til að gengið yrði mun lengra en þá var gert og að meira yrði fellt niður af gjöldum en þá stóð til til þess að jafna samkeppnishæfni slíkra bifreiða. Við lögðum einnig til að þetta mundi gilda í lengri tíma en ráðherra hafði gert ráð fyrir, enda kom í ljós að ráðherra flutti þetta mál síðan aftur þegar heimildin rann út og flutti það líka síðast á 130. löggjafarþingi. Í það skipti var gengið ögn lengra í að fella niður gjöldin en áður hafði verið gert og nú er þetta mál komið inn á þing á nýjan leik. Ég vil því undirstrika að við í Samfylkingunni höfum viljað ganga miklu lengra en hæstv. ríkisstjórn hefur gert í því að fella niður gjöld af slíkum bifreiðum.

Í stefnumótun okkar í Samfylkingunni hefur einmitt verið lagt til að það yrði heimild til að fella niður öll opinber gjöld af ökutækjum sem eru knúin öðru eldsneyti en hefðbundnu bensíni og olíu. En það hefur ekki náð fram að ganga í þessari hæstv. ríkisstjórn sem hefur viljað fara hina skemmri leið í þessu efni.

Það ber auðvitað að harma, virðulegi forseti, vegna þess að samgöngur eiga stóran hlut í losun gróðurhúsalofttegunda og því skiptir verulegu máli að stærri hluti eldsneytis sem rennur til samgangna byggist á umhverfisvænum orkugjöfum og er mikilvægt að auka samkeppnishæfni slíkra ökutækja sem ganga fyrir endurnýjanlegu eldsneyti. Ökutæki sem byggja á umhverfisvænum orkugjöfum eru miklu dýrari en ökutæki sem ganga fyrir hefðbundnum orkugjöfum eða bensíni og því á að kappkosta eins og við leggjum til í Samfylkingunni að öll opinber gjöld falli niður af slíkum ökutækjum. Okkur ber skylda til þess þegar við stöndum frammi fyrir þeirri ógn sem er af losun gróðurhúsalofttegunda og hefur komið fram í viðamiklum skýrslum um þetta efni og mig undrar að ekki hafi verið stigið stærra skref í þessu efni en raun ber vitni í frumvarpinu.

Ég sé að í greinargerð með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því fyrr en í árslok 2008 að mótuð verði heildarstefna um skattlagningu bifreiða sem nýta umhverfisvæna orkugjafa. Ég tel að ríkisstjórnin hefði átt að drífa fyrr í því þarfa verki að móta slíka heildarstefnu um skattlagningu bifreiða sem nýta umhverfisvæna orkugjafa. Ef hæstv. ráðherra hefði séð ástæðu til að vera viðstaddur umræðu um sitt eigið frumvarp þá hefði hann getað svarað þessu.

Ég hefði líka viljað fá fram afstöðu hæstv. fjármálaráðherra til þess sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu og í greininni sjálfri en þar kemur fram að til að sporna við misnotkun er lagt til að óheimilt verði að breyta bifreiðum sem notið hefðu niðurfellingar vörugjalda samkvæmt 3. gr. frumvarpsins á þann hátt að dregið verði úr vistvænum eiginleikum hennar. Hér stendur að tollstjórar hafi eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis og meðal verkefna þeirra er að kanna hvort gerðar hafi verið óheimilar breytingar á bifreiðum sem notið hafa niðurfellingar samkvæmt frumvarpi þessu. Í því skyni geta þeir kannað eldsneytisgeyma og vél ökutækis.

Ég hefði viljað fá nánar lýst og kalla eftir því í starfi nefndarinnar hvernig eigi að framfylgja því eftirliti sem hér er lagt til til að sporna við þeirri misnotkun sem hér er lýst. En það skýrist væntanlega í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar á þessu máli. Það er ýmislegt sem þarf að skýra og það eru ýmsir sem við þurfum að fá til umsagnar eða til viðtals við nefndina af því að það eru ýmsar spurningar sem þetta frumvarp kallar fram. Og þótt stutt lifi af þessu þingi þá við verðum að gefa okkur tíma til þess, virðulegi forseti, að kalla til þá aðila sem nauðsynlegt er að komi fyrir nefndina í þessu máli.

Hér er verið að auka niðurfellinguna á þessum gjöldum, það er verið að tala um að gjaldið verði 500 þús. kr. lægra en það er nú. Það er talað um að í dag séu 50 bifreiðar hér á landi sem ganga fyrir metangasi að hluta eða öllu leyti og maður veltir fyrir sér þegar verið er að auka niðurfellingu á þessum gjöldum hvað megi ætla að það verði margir sem muni nota sér hagræði af slíkri niðurfellingu og skipta yfir í orkuvænni bifreiðar. Það kemur hins vegar fram hjá hæstv. ráðherra að hann gerir ekki ráð fyrir að margir nýti sér þetta eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Ekki er talið að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á kostnað skattkerfisins við umsýslu þessara mála frá því sem nú er.“

Síðan kemur fram, með leyfi forseta:

„Þó þarf að hafa í huga að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í gildandi lögum er heimilt að fella niður 240 þús. kr. af vörugjaldi á bifreiðar af þessum toga þannig að mismunurinn eftir afgreiðslu þessa frumvarps yrði þá um 250 þús. kr. á meðalfólksbíl, sem svarar til um 12,5 millj. kr. tekjutaps fyrir hverjar 50 bifreiðar sem fluttar væru inn til landsins.“

Ekki er gerð nein tilraun til þess að meta hve mikill fjöldi þeirra yrði í ljósi þessarar niðurfellingar.

Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað gera athugasemd við það að tvinnbílarnir séu ekki inni í þessu frumvarpi og ekki gert ráð fyrir því að draga úr skattlagningu þeirra bifreiða og mér finnst að í bréfi sem þingmenn hafa fengið þar sem Toyota á Íslandi fjallar um þetta frumvarp til niðurfellingar á vörugjaldi á metan- og vetnisbílum, sé það rökstutt mjög vel að full ástæða sé til að taka tvinnbílana inn í þetta frumvarp sem mundi skila okkur meiri árangri í því að koma á vistvænni orkugjöfum á bifreiðar. Í bréfi frá Toyota þar sem þeir fagna því að þetta frumvarp sé lagt fram og fyrirætlanir stjórnvalda að fella niður aðflutningsgjöld á metan- og vetnisbílum þá kemur fram, með leyfi forseta:

„Þegar hins vegar í ljós kom að ekki var ætlunin að flokka tvinnbíla með þeim bifreiðum sem njóta munu þessarar niðurfellingar fundum við okkur knúna til að benda á ákveðna þætti sem betur mættu fara í frumvarpinu eins og það er sett fram í núverandi mynd. Frumvarpið kveður m.a. á um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum á metan- og vetnisbílum. Núverandi aðstæður á markaðnum leyfa eingöngu áfyllingu þessara orkugjafa á höfuðborgarsvæðinu.“

Það er einmitt mjög athyglisvert að það skuli sett fram vegna þess að þetta mun þá eingöngu gagnast þeim sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Þarna er augljóslega um mismunun milli byggðarlaga að ræða. Það eru eingöngu íbúar höfuðborgarsvæðisins sem eiga þess kost að njóta þessarar niðurfellingar á bílakaupum sínum. Fjöldi metan- og vetnisbíla sem fáanlegir eru til sölu til neytenda er takmarkaður. Áhrif þessara aðgerða stjórnvalda í átt að fjölgun umhverfisvænna bifreiða með hjálp niðurfellingar aðflutningsgjalda eru því einnig dæmd til þess að verða takmarkaðri en ella. Tvinnbílar ganga bæði fyrir bensíni og rafmagni sem gerir neytendum kleift að keyra á umhverfisvænni hátt en almennt gerist með hefðbundna bensín- og dísilbíla, óháð búsetu. Þá gerir hönnun þeirra einnig ráð fyrir bestri nýtingu hins vistvæna tvinnkerfis í borgarakstri. Tvinnbílar ættu því tvímælalaust að njóta sömu niðurfellingar og aðrir bílar í frumvarpinu.“

Síðan kemur, með leyfi forseta:

„Það er einlæg skoðun okkar að það frumvarp sem vísað er í hér að ofan og sem leggja á fyrir Alþingi á komandi dögum sé langan veg frá því að hámarka möguleika á aukinni vitund og verki í átt að vistvænum akstri ef tvinnbílar fá ekki notið sömu niðurfellingar og t.d. metan- og vetnisbílar. Tvinnbílar eru raunhæfur kostur þegar kemur að vistvænum kaupum neytenda á bifreiðum. Þeir menga minna en hefðbundnir bensín- og dísilbílar og á notkun þeirra er komin áralöng reynsla og val neytenda á því að gerast vistvænir ökumenn einskorðast ekki við tilraun orkugjafans innan eins byggðarlags eins og í tilviki metans- og vetnisbifreiða.“

Ég held að þetta séu röksemdafærslur sem þingmenn hljóta að taka alvarlega og skoða í nefndinni sem fær málið til umfjöllunar. Það verður vissulega fróðlegt að heyra hvað hv. umhverfisnefnd segir um þetta frumvarp og þá tillögu sem hér hefur komið fram um að bæta tvinnbílunum líka við sem fengju þá niðurfellingu á gjöldum. Af því að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar er hér í salnum vil ég beina því til hans að hann beiti sér fyrir því að hv. umhverfisnefnd fái þetta frumvarp til umsagnar ásamt þeirri tillögu sem hér hefur komið fram og væntanlega verður send öllum þingmönnum, að niðurfelling á þessum vörugjöldum nái líka til tvinnbílanna.