133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

samningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Egyptalands.

684. mál
[16:39]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu þar sem leitað er heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og Arabíska lýðveldisins Egyptalands, sem undirritaður var í Davos í Sviss 27. janúar 2007.

Samningurinn við Egyptaland er áttundi fríverslunarsamningurinn sem EFTA-ríkin gera við ríki fyrir botni Miðjarðarhafs sem tekur þátt í Barcelona-ferlinu, sem er svæðisbundið samstarf ríkja Evrópusambandsins og Miðjarðarhafsríkja. Samningaviðræðurnar tóku tíu ár og þeim lauk í október 2006. Mikil áhersla hefur verið lögð á að EFTA-ríkin og Egyptaland fullgildi samninginn hið fyrsta svo hann komist til framkvæmda. Samningurinn nær fyrst og fremst til vöruviðskipta.

Samkvæmt samningnum fella Egyptar niður tolla á vörur aðrar en landbúnaðarvörur í áföngum. Þá felur samningurinn í sér tollkvóta fyrir flestar mikilvægustu sjávarafurðir Íslands. Kvótarnir stækka eftir ákveðnu fyrirkomulagi á sex ára tímabili sem að lokum leiðir til fullrar fríverslunar.

Af þeim sökum standa vonir til þess að samningurinn muni skapa aukin tækifæri fyrir viðskipti með sjávarafurðir milli Íslands og Egyptalands. Þá kann Egyptaland einnig að verða áhugaverður markaður fyrir aðrar útflutningsvörur Íslendinga.

Ákvæði eru einnig í samningnum um vernd hugverkaréttinda, fjárfestingar, þjónustustarfsemi, greiðslu- og fjármagnsflutninga, samkeppnismál, tækni- og fjárhagsaðstoð, stofnanaákvæði, samráð og lausn ágreiningsmála. Með tvíhliða samningi hvers EFTA-ríkis fyrir sig við Egyptaland eru tollar á tilteknum landbúnaðarvörum lækkaðir eða felldir niður, t.d. fær Ísland markaðsaðgang fyrir lifandi hross til Egyptalands og 2000 tonna tollkvóta fyrir lambakjöt.

Ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og utanríkismálanefndar.