133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

449. mál
[16:42]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2006, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur og Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Lilju Sturludóttur frá fjármálaráðuneyti.

Umsögn um málið barst frá Landssamtökum lífeyrissjóða.

Markmið tilskipunarinnar er að stuðla að hagkvæmum fjárfestingum og tryggri ávöxtun, tryggja réttindi sjóðfélaga og annarra rétthafa, gera kleift að bjóða þjónustu yfir landamæri, stuðla að faglegri stjórnun, tryggja samkeppni, koma á gagnkvæmri viðurkenningu eftirlitsaðila innan ESB, skapa forsendur fyrir öflugri innri markaði fyrir lífeyrissparnað o.fl.

Samkvæmt a-lið 2. gr. tilskipunarinnar eru stofnanir sem stýra almannatryggingakerfi og falla undir reglugerð EBE nr. 1408/71 undanþegnar gildissviði hennar. Íslenska lífeyrissjóðakerfið byggist á þeirri reglugerð og fellur þar af leiðandi utan gildissviðsins nema að því marki sem ekki er um skyldubundnar starfstengdar lífeyrisgreiðslur að ræða.

Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi. Fjármálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp til laga um starfstengda eftirlaunasjóði til að innleiða efni þessarar tilskipunar. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis afgreiddi málið frá sér með nefndaráliti 8. mars síðastliðinn og mælti með samþykkt frumvarpsins. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir hana rita auk mín hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Drífa Hjartardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Guðjón A. Kristjánsson.