133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[17:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og það er skemmst frá því að segja að við í Frjálslynda flokknum styðjum það, og það gerum við sérstaklega í ljósi þess að hér er verið að samræma reglur til veitinga búsetuleyfis og síðan ríkisfangs. Hér er mest um eðlilegar breytingar að ræða og það er einfaldlega sjálfsagt að ef fólk öðlast einhver réttindi þurfi það að takast á hendur einhverjar skyldur. Það er sjálfsagt mál að gera þá kröfu til þeirra sem verða íslenskir ríkisborgarar að þeir öðlist einhvern grunn í íslensku máli eins og fram kemur í þessu frumvarpi. Ég vek athygli á því að á bls. 5 í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að forsenda þess að hægt var að fara þessa leið er að nýlega voru veittir meiri fjármunir í þennan málaflokk, þ.e. kennslu íslensku. Og það má rekja það til þess að við í Frjálslynda flokknum höfum lagt áherslu á að varðandi aðlögun útlendinga þurfi að taka til í þeim málaflokki. Við sjáum afrakstur af því birtast m.a. í þessu frumvarpi og það gerir hæstv. dómsmálaráðherra kleift að leggja fram þetta frumvarp. Þessi nauðsynlega umræða sem við í Frjálslynda flokknum fórum af stað með er að skila sér með vitrænni hætti í löggjöf landsins með því að verið er að samræma ýmsar reglur eins og fram kemur í þessu frumvarpi sem við styðjum heils hugar.

Ég ætla ekki að orðlengja þessa umræðu meira en ítreka enn og aftur að hér er um frumvarp að ræða sem við í Frjálslynda flokknum styðjum.