133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[17:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ekki það að ég ætli að lengja þessa umræðu mikið en það vill oft henda þegar mikið gengur á í þinginu að við þingmenn náum ekki að taka með okkur alla pappírana okkar í ræðustól. Mig langar aðeins til að undirstrika örfáa þætti í sjónarmiði okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varðandi þetta mál sem mér tókst ekki að gera í fyrri ræðu minni, í fyrsta lagi vegna þess að ég hafði þá ekki með mér nefndarálit meiri hlutans og átti þess ekki kost að hlusta á ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, framsögumanns meiri hluta nefndarinnar. Eftir að hafa litið yfir nefndarálitið sé ég að það eru nokkur atriði sem mig langar til að undirstrika um sjónarmið mín í þessum efnum.

Varðandi þá stöðu sem flóttamenn hafa sem nýtur ákveðinnar sérstöðu í þessu frumvarpi finnst mér mikilvægt að undirstrika að það sé sambærileg aðstaða sem þeir eru í sem hafa hlotið hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Mér þykir í öllu falli nauðsynlegt að dómsmálaráðherra hafi ákveðnar heimildir samkvæmt þessum lögum til að veita undanþágu, ekki bara á grundvelli þess að viðkomandi uppfylli skilyrði flóttamannasamningsins sem getið er um í greinargerð með frumvarpinu, heldur líka að hann hafi heimild til að veita þeim undanþágu sem mannréttindaskrifstofa nefnir og þar á meðal eru þeir sem hafa hlotið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það er mjög mikilvægt að dómsmálaráðherra hafi samkvæmt lagatextanum þá heimild. Þess vegna styð ég væntanlega breytingartillögu sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson talaði um í ræðu sinni og boðaði að mundi koma fram við 3. umr.

Mér finnst líka mikilvægt að undirstrika að Alþingi hefur auðvitað alltaf þann möguleika að þó að fólk uppfylli ekki skilyrðin sem þessi lög setja hefur viðkomandi alltaf tækifæri til þess að sækja beint um til Alþingis. Þá er líka mjög mikilvægt að einu skilyrði sé fullnægt í ráðuneytinu, nefnilega því að fólki sé gerð grein fyrir þessum rétti, að það hafi alltaf þann rétt að fara með mál fyrir Alþingi beint. Við höfum oft rekið okkur á það í kerfinu okkar að upplýsingar til fólks sem á ákveðinn rétt komast ekki til þess þannig að ég held að það sé mjög nauðsynlegt að undirstrika það hér við hæstv. dómsmálaráðherra og sömuleiðis starfsmenn ráðuneytisins að þessi réttur fólks sé undirstrikaður og því gerð grein fyrir því að það geti tekið mál sín beint til Alþingis.

Varðandi 6. tölul. 1. mgr. b-liðar 5. gr. sem gerir ráð fyrir því að flóttamaður sem fullnægir skilgreiningu í alþjóðasamningi geti sótt um ríkisfang eftir fimm ár í staðinn fyrir sjö vil ég segja að ég er sammála þeirri niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar sem telur eðlilegt að ákvæðið taki einnig til þeirra sem hafa fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Í nefndaráliti meiri hlutans segir að meiri hlutinn leggi áherslu á það að íslenskukennsla fyrir útlendinga verði byggð upp þannig að unnt verði að standa við tímamörk í gildistökuákvæði frumvarpsins sem miðar við að skyldan til að standast próf í íslensku taki gildi 1. janúar 2009 og jafnframt bendir meiri hlutinn á mikilvægi þess að framboð kennslunnar verði nægjanlegt og aðgengilegt öllum þeim sem hana vilja sækja. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni er ég sammála prinsippinu í þessu máli en mér finnst skipta verulegu máli að menn sjái fyrir sér í alvöru á hvern hátt við getum staðið okkur og staðið við þau tímamörk sem um ræðir. Það þarf að sýna reglugerð í þessum efnum. Það verður að vera trúverðugt takmark, og leið að því markmiði þarf að vera skýr og öllum ljós til þess að maður geti skrifað undir það sem hér stendur, ella hefur þessi yfirlýsing lítið gildi. Það er mjög mikilvægt að brýna meiri hlutann til að tryggja að reglugerðin sem um ræðir komi sem allra fyrst og að sýnt sé á þau spil sem ættu að vera til staðar í menntamálaráðuneytinu í þeim efnum.

Varðandi síðan 1. mgr. e-liðar 5. gr. sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir að falli brott, þetta ákvæði um þegnflæminguna, lýsi ég yfir stuðningi við þá breytingartillögu. Það gerði ég ekki í fyrri ræðu minni. Síðan varðandi það hvort ástæða væri til að hverfa frá því fyrirkomulagi að heimila tvöfaldan ríkisborgararétt er ég sátt við þá afgreiðslu sem meiri hlutinn leggur til. Hann telur sem sagt ótímabært að ráðast í að gera breytingar varðandi þetta atriði að svo komnu máli en telur rétt að umræðunni verði haldið áfram og málið skoðað ofan í kjölinn í náinni framtíð. Ég er sátt við það og lýsi ánægju með það að meiri hlutinn skuli gera ráð fyrir að þetta verði með þessum hætti. Ég hefði talið fullkomlega óeðlilegt og ekki réttlætanlegt að fara í gegn með breytingu á þessum ákvæðum laganna án þess að hugmynd þar að lútandi hefði verið send út til umsagnaraðila. Þetta væri það veigamikil breyting að ég teldi algerlega óraunhæft og óréttlætanlegt að fara með slíka breytingu í gegn án þess að umsagnaraðilar kæmu að því máli. Ég er sátt við þessa endanlegu niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar. Þó svo að hæstv. dómsmálaráðherra hafi í 1. umr. um þetta mál hvatt nefndina til að taka atriðið til skoðunar taldi ég ekki tímabært að fara út í breytingar að svo komnu máli.

Að lokum, hæstv. forseti, lýsi ég yfir stuðningi við það sem segir í niðurlagi nefndarálits meiri hlutans, þ.e. þar sem „fjöldi þeirra mála þar sem óskað verður eftir meðferð Alþingis á umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt mun væntanlega aukast töluvert við gildistöku ákvæða frumvarpsins telur meiri hlutinn rétt að íhuga hvort ekki sé ástæða til að breyta þingsköpum þannig að skipuð verði sérstök sérnefnd um ríkisborgaramál sem hafi það hlutverk að fjalla um þessar umsóknir“. Ég verð að segja að mér þykir ekki óeðlilegt að slík nefnd sé sett á laggirnar þó svo að ég lýsi því jafnframt yfir að sú undirnefnd sem starfað hefur hjá allsherjarnefnd og hefur haft með þessi mál að gera hingað til hafi auðvitað staðið sig afar vel í störfum sínum, en það verður líka að horfa til þess að hér er um nokkuð sérhæfð mál að ræða og ekki óeðlilegt að þessi mál fái sérstaka skoðun í sérstakri nefnd.

Nú hef ég, hæstv. forseti, gert grein fyrir meginsjónarmiðum mínum varðandi nefndarálit meiri hlutans. Að öðru leyti undirstrika ég það sem ég hef áður sagt varðandi stuðning við breytingartillögur frá minni hluta nefndarinnar, bæði þær sem komið hafa fram og þá sem líta mun dagsins ljós við 3. umr.