133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[17:48]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá landbúnaðarnefnd um tillögu til þingsályktunar um trjáræktarsetur sjávarbyggða. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Guðjón Hjörleifsson. Nefndin hefur fjallað um málið og hefur samþykkt að afgreiða tillöguna. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Mógilsá – rannsóknastöð skógræktar, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Vestmannaeyja, Veðurstofu Íslands og Þorbergi Hjalta Jónssyni.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra verði falið að hefja undirbúning að stofnun trjáræktarseturs sjávarbyggða í Vestmannaeyjum sem hafi það markmið að rannsaka særoks- og loftslagsbreytingar á trjágróðri og trjárækt á eyjum í Norður-Atlantshafi, einkum Íslandi, Færeyjum, Hjaltlandi, Orkneyjum, Suðureyjum og Grænlandi.

Ekki er óeðlilegt að Vestmannaeyjar séu valdar í þessu skyni til að setja niður trjáræktarsetur því Vestmannaeyjar eru mjög heppilegur staður vegna aðstæðna og þeirra rannsókna sem þegar hafa farið fram þar. Árið 1989 hófust tilraunir með það markmið að finna heppilegan trjágróður fyrir strandsvæði á Íslandi. Á Heimaey eru ákjósanleg skilyrði til rannsókna á vexti og þroska trjágróðurs við sjó. Þar er mikil og löng reynsla af trjárækt og á Stórhöfða er ein stærsta veðurstöð landsins með m.a. mælingar á saltstyrk í lofti auk venjulegra athugana. Stöðin er einnig vel þekkt í veðurfræðirannsóknum, einkum á sviði storma og særoks. Í Vestmannaeyjum er allstórt og samheldið samfélag og því er bæði mannafli og nauðsynleg þjónusta á staðnum. Í bænum eru bæði grunn- og framhaldsskólar og því möguleikar á gagnvirkum tengslum við skólastarf. Rannsóknastofnanir eru í bænum, m.a. setur Háskóla Íslands og náttúrustofa.

Þeir áhersluþættir sem aðallega er gert ráð fyrir í starfsemi trjáræktarseturs sem yrði staðsett í Vestmannaeyjum er m.a. spálíkan fyrir áhrif særoks á trjágróður, tilraunir með arfgerðir og aðferðir fyrir trjárækt í sjávarbyggðum, rannsóknir á áhrifum særoks og loftslagsbreytinga á skógarvistkerfi við Norður- Atlantshaf, einkum náttúruleg birki- og víðivistkerfi, rannsóknir á orsökum saltskemmda og eðli særoksþols hjá trjágróðri, tilraunir með hagkvæmar aðferðir til að koma upp skógi á berangri, og miðlun þekkingar á trjá- og skógrækt við Norður-Atlantshaf.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Einar Már Sigurðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. En undir nefndarálitið rita Drífa Hjartardóttir, formaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Jón Kristjánsson, Gunnar Örlygsson, Jóhann Ársælsson, Birkir J. Jónsson, Jón Bjarnason og Guðjón Hjörleifsson.