133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[17:55]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Eins og ég sagði í andsvari er þetta mjög áhugavert mál en það væri auðvitað æskilegt áður en menn leggja af stað með svona mál að það væri að einhverju leyti kannað hver fyrirhugaður kostnaður er við þetta.

En mér finnst líka þegar við erum að ræða um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu, t.d. í Vestmannaeyjum og víða um land í sjávarbyggðum landsins, að þá séu oft einhverjar svona tillögur sem eru, því miður, sýndartillögur. Það er ekki endilega einhver meining á bak við það sem er verið að gera. Það er búið að svipta þessar byggðir oft og tíðum atvinnuréttinum. Það getur enginn hafið á ný atvinnu í sjávarútvegi. Búið er að festa allt atvinnulífið niður í kvótum og síðan koma stjórnarliðar ef til vill með eitthvert setur.

Ég get nefnt dæmi um að í kjördæmi mínu spretta upp fjölmörg setur. Það er Ísakssetur á Blönduósi, sem er að mörgu leyti gott setur. Það er Síldarminjasafnið á Siglufirði, sem verið er að setja mikla fjármuni í og allt gott um það að segja, eins og þetta verkefni. En að einhverju leyti sér maður að markmiðið er, því miður, að deyfa. Verið er að deyfa þau höft sem verið er að leggja á sjávarbyggðirnar og manni blöskrar stundum hvað er gengið langt.

Þó að þetta setur skapi kannski örfá störf, það hefur nú ekki komið fram í andsvörum hvað mörg störf er verið að búa til í Vestmannaeyjum, þá væri miklu betri aðgerð t.d. að lækka fargjaldið með Herjólfi. Það væri miklu betur til þess fallið að bæta búsetuskilyrði í Vestmannaeyjum.

Ég vil upplýsa hv. þingmenn Suðurkjördæmis, bæði þann sem flytur málið og formann landbúnaðarnefndar, að gjaldið í Færeyjum, ferjugjaldið, er helmingi lægra en sambærilegt gjald í Vestmannaeyjum með Herjólfi milli lands og Eyja. Stjórnarflokkarnir eru því miður að leggja gríðarleg atvinnuhöft á þessar byggðir og koma síðan með einhver setur sem mögulega koma og mögulega ekki. Það er oft og tíðum verið að boða eitt og annað sem þetta, einhverjar aðgerðir en það sem mundi muna um fyrir Vestmannaeyinga, eins og alla sem eru í sjávarbyggðunum, er að aflétta þeim atvinnuhöftum sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa lagt á þessar byggðir.

Ég vil minna á að margir Vestmannaeyingar búa við það að þurfa að leigja til sín aflaheimildir. 70% af því sem þeir afla sér inn fer í leigu. Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi ástand og mér finnst að hv. þingmenn stjórnarliðsins ættu að einbeita sér að þeim málum og aflétta þeim atvinnuhöftum.

Því miður hefur maður meira að segja orðið vitni að því, hæstv. forseti, að þessi atvinnuhöft ganga svo langt að það er búið að banna unglingum að leggja línu í fjöruna heima hjá sér vegna þess að það mun mögulega opna einhverja glufu á kvótakerfinu.

Ég er að segja, og það er mín skoðun, að svona tillaga þótt hún sé góð, að fara í rannsóknir í Vestmannaeyjum, er ekki það verkefni sem skiptir öllu máli fyrir sjávarbyggðirnar hvort sem það eru Vestmannaeyjar eða aðrir staðir. Það eru samgöngumálin. Og þegar þetta er eina afrekið sem stjórnarliðar koma með, þ.e. svona trjáræktarsetur, þá er maður furðu lostinn. Ég hefði miklu frekar viljað að atvinnuhöftunum væri aflétt og menn færu í að skoða t.d. kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. En það má ekki skoða.

Þeir flokkar sem leggja fram þetta litla mál um trjáræktarsetur, sem mögulega verður, hafa ekki einu sinni kannað það hvað eiga að vera mörg störf og hver kostnaðurinn er við þetta. Og þá spyr maður sig auðvitað: Hver er meiningin á bak við svona tillögur ef menn hafa ekki einu sinni kannað það?

Ég er nefnilega ekki viss um að á bak við sé mikil meining, því miður. En það verður fróðlegt að heyra hvort hv. formaður landbúnaðarnefndar hafi aflað sér einhverra gagna um kostnaðinn á meðan ég hef haldið þessa ræðu. Fólk hlýtur að hafa einhverjar hugmyndir um kostnaðinn og fjölda starfa sem menn eru að leggja til að verði stofnuð í nýjum ríkisstofnunum í Vestmannaeyjum. Það hlýtur að vera. Menn geta ekki verið að leggja fram tillögur þing eftir þing um trjáræktarsetur í Vestmannaeyjum án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað á að búa til mörg störf. Ekki eina einustu hugmynd. Það kemur ekki fram í andsvörum. En ég vona svo sannarlega að hv. formaður landbúnaðarnefndar geri okkur grein fyrir því.

En það er nú svo að því miður eru það ekki bara Vestmannaeyingar sem hafa tapað á því kerfi sem menn eru að leiða talið frá með tillögu sem þessari, heldur er það þjóðin öll. (Gripið fram í.) Menn reyna að afsaka þetta með einhverju hagræðingartali. En það hefur komið fram og er óumdeilt að verðmæti útflutts sjávarfangs hefur lækkað í krónum talið á síðustu árum til ársins 2005. Samt sem áður treysta stjórnarliðar sér ekki til að ræða það heldur koma með tillögu sem snýr að trjáræktarsetri í Vestmannaeyjum. Mér finnst það vera svolítið sérstök forgangsröðun þegar maður verður vitni að því að neyðaróp berast í rauninni hringinn í kringum landið frá sjávarbyggðunum.

Í Silfri Egils í gær eða fyrradag var verið að ræða að í rauninni væri öll fiskvinnsla á norðausturhorninu að leggjast af. Vestfirðingar héldu sinn neyðarfund og stjórnarliðar koma hér með þingsályktunartillögu um trjáræktarsetur. Hvað ætla þeir að fara með vestur á firði? (Gripið fram í: … gera fyrir landsbyggðina? Talaðu bara niður til þeirra.)

Herra forseti. Hér er gripið fram í og sagt að verið sé að tala niður til þess sem verið er að gera á landsbyggðinni. Það er alls ekki verið að því. (Gripið fram í: Jú.) Alls ekki. Ég er að tala um hlutina eins og þeir eru. Ég veit og heyri að það er sárt fyrir hv. þingmann að heyra það vegna þess að það er sannleikurinn og sannleikanum verður oft hver sárreiðastur. Það sannast í þessu máli að menn þola í rauninni ekki að ræða þessa hluti, þessar meginspurningar sem hvíla á fólkinu. Það eru samgöngurnar og það er rétturinn til að stunda atvinnuna. En það treysta stjórnarliðar sér ekki til að ræða. Þeir koma með trjáræktarsetur sjávarbyggða og hafa ekki einu sinni kannað hvað þetta er stórt batterí sem þeir ætla að koma upp í Vestmannaeyjum.