133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[18:06]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er sérkennilegt að heyra hv. þingmann segja að ég sé að tala niður landsbyggðina. Ég er að tala um hlutina eins og þeir eru. (DrH: Þú ert að tala þetta verkefni niður.) Það er ekki hægt að breyta landsbyggðinni í eitthvert safn um gamla tíma eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru að gera. Það þýðir ekkert að ætla að fara að svipta fólk atvinnuréttinum og hafa síðan bara söfn um liðna tíma eða einhver setur hér og þar. Það gengur ekki upp. Það þarf að leyfa fólki að stunda þá atvinnu sem þessir staðir hafa byggst upp á. Það er deginum ljósara að það þarf að gera ef menn ætla að hafa byggð í öllu landinu. Það þýðir ekkert að vera að dreifa svona setrum sem hafa enga þýðingu.

Við verðum að skoða þessa greinargerð sem er afskaplega stutt. Ég veit ekki hvort hún er upp á 15 línur eða hvað. En hvað kemur þetta loftslagsbreytingum við? (DrH: Það er nú mjög mikið.) Ég get ekki séð að þetta komi loftslagsbreytingum við, alls ekki nokkurn skapaðan hlut. En þetta er bara lítið mál til að drepa í rauninni erfiðleikum byggðanna á dreif, herra forseti, og ég vona svo sannarlega að maður verði vitni að því að stjórnarþingmenn komi með alvörumál fyrir landsbyggðina en ekki svona sýndartillögur.