133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[18:09]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði það í upphafi að þetta væri áhugavert mál og það getur verið það. En þegar maður verður vitni að því að sá sem flytur málið hefur ekki einu sinni kannað hvað þetta muni kosta, veit ekkert um það heldur kemur hér með málið og hefur ekki hugmynd um það, þá fer maður að spyrja sig: Hvaða meining er á bak við það? Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að kjósendur á landsbyggðinni eru farnir að sjá í gegnum þetta. Þeir eru farnir að sjá í gegnum það þegar stjórnarliðar koma færandi hendi með einhver söfn um liðna tíma og fara síðan (Gripið fram í.) og loka af að fólk geti mætt í vinnuna án þess að borga einhverjum sem stundaði þá atvinnu fyrir 10 eða 20 árum 70% af því sem það aflar. Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á. Ég vonast svo sannarlega til þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fari að sjá að sér, þó að það sé kannski ekki mikil von til þess, en þetta gengur ekkert upp. Síðan koma þeir með einhverjar tillögur sem þeir eru ekki einu sinni búnir að reikna út og hafa ekki hugmynd um hvað kosta.

Ég vil minna á hv. þingmann á að þegar verið er að setja okkur sem búum á landsbyggðinni í það að við séum þiggjendur þá er það ekki sanngjarnt vegna þess að tæplega 30% af skatti landsmanna er aflað á landsbyggðinni en 15% er varið þar. Þannig að þegar menn koma hér færandi hendi með eitthvað sem þeir vita ekki einu sinni hvað kostar og þykjast vera að bera einhver störf inn á borð til þeirra, þegar er búið að svipta þessar byggðir réttinum til að nýta auðlindir þjóðarinnar, þá finnst mér það í rauninni vera fyrir neðan allar hellur.