133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[18:53]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu flutta af fimm hv. þingmönnum. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns, það er ánægjuefni þegar mál þingmanna komast úr nefndum og til afgreiðslu. Því miður skeður það sjaldan. Það er ekki skemmtilegt að sitja uppi með það árum saman að áhugaverð mál sem eru lögð fram af þingmönnum fá ekki framgang. Það er sérstaklega reynsla stjórnarandstöðuþingmanna sem búa við það að þeirra mál, þótt góð séu og jafnvel þó að þau séu flutt af þingmönnum allra flokka, fá ekki framgang. Ég óska hv. 1. flutningsmanni, vini mínum og nafna, hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni, til hamingju með að þetta mál skuli koma til afgreiðslu og fá þinglega meðferð.

Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvað best sé að efla í atvinnulegu tilliti í sjávarbyggðum, eins og vissulega hefur komið fram í þessari umræðu. Samflokksmaður minn, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, vék réttilega að því að fiskveiðar og samgöngur vega þyngst hvað varðar atvinnurekstur í sjávarbyggðum og við hefðum frekar átt að efla hag byggðanna hvað það varðar, og skal ekki gert lítið úr þeim orðum. En það breytir því ekki að þó að lítil mál séu á ferð, við getum notað það orð um þetta mál svona í upphafi, eru þau mörg hver áhugaverð. Sum verkefnin eru ekki stór í sniðum þegar þau hefjast en oft skjóta áhugaverð mál sprotum og vaxa og leiða af sér ýmislegt sem menn sáu kannski ekki fyrir. Hér er lagt upp með það að skoða sérstaklega trjárækt í sjávarbyggðum og einkanlega vitnað til þess í ályktuninni að skoða trjágróður og rannsaka þar sem mikið særok og loftslagsbreytingar geta breytt gróðurfari. Meðal annars er talað um eyjar í Norður-Atlantshafi, Ísland, Færeyjar, Hjaltland, Orkneyjar og Suðureyjar á Grænlandi o.s.frv., og ég tek undir það efni tillögunnar sem varðar samstarf við önnur lönd. Við hljótum að geta lært af öðrum þjóðum ef þær hafa staðið fyrir rannsóknum eins og við erum að leggja af stað með. Ég vænti þess að menn kynni sér það í aðdraganda stofnunar þessa trjáræktarseturs. Að afla sér þekkingar annars staðar eykur líkur á að betur verði að verki staðið. Ég vænti þess að svo verði.

Það vekur hins vegar athygli mína, hæstv. forseti, að enginn úr þingflokki hæstv. landbúnaðarráðherra leggur málinu lið sem flutningsmaður (DrH: Ráðherra er samþykkur þessu.) Ég er upplýstur um það í frammíkalli, af hv. þm. Drífu Hjartardóttur, að sjálfur landbúnaðarráðherra hafi gefið vilyrði sitt fyrir því að þetta gæti náð fram að ganga. Það er fróðlegt að fá þær upplýsingar úr salnum því það er nefnilega yfirleitt þannig að ráðherrarnir stoppa mál þingmanna og á það við um þingmál stjórnarþingmanna en þó enn frekar um mál þingmanna stjórnarandstöðunnar. Mál þingmanna stjórnarandstöðunnar liggja hér oft árum saman vegna þess að ráðherrar vilja ekki hleypa þeim í gegn, þau eru endurflutt og mælt fyrir þeim og margir taka þátt í umræðum en þau fá ekki framgang. Ráðherrarnir vilja ekki hleypa málum fram. Um þetta eru dæmi og menn hafa séð það að ...

(Forseti (JónK): Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að við ætluðum að gera hlé kl. 7, hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.)

Herra forseti. Ég hugsa að ég eigi eftir eina og hálfa mínútu þannig að ég óska eftir að fá að ljúka máli mínu.

(Forseti (JónK): Þá mun hv. þingmaður ljúka máli sínu.)

Ég held að það sé mjög áhugavert að velta því upp að það þurfi að taka upp breytingar á meðferð þingmála að því er þetta varðar. Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Björgvin G. Sigurðsson, sagði að því leyti til.

Það mál vel vera að eftir að hafa kynnt sér málin, sem ég vænti að menn geri og skoði vel m.a. með tilliti til þess sem unnið hefur verið að á eyjunum í Norður-Atlantshafi sem nefndar eru í upphafi tillögunnar, finni menn að standa eigi öðruvísi að málum en hér er lagt til. Ef til vill finnst mönnum að stofna eigi sérstakt trjáræktarsetur og verkefnið geti þess vegna tengst Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum. Eigi að síður held ég að vel megi hugsa sér að hafa þetta eins og hér er gert ráð fyrir og það verði þá til þess að efla almennt vísindastarf og náttúrustarf í Vestmannaeyjum.

Hæstv. forseti. Ég held að sú tillaga sem hér er sé ein af þeim litlu tillögum sem menn sjá ekki endilega fyrir fram að muni leiða mikið af sér, en hún getur gert það. Ekki verða allar tillögur sem koma fram á þingi að framtíðarverkefnum en sumar hafa vissulega orðið það. Við tökum stundum þá áhættu að samþykkja mál sem við vitum ekki fyrir fram til hvers leiða en koma svo til með að skila talsverðri þekkingu og fleiri störfum og jafnvel sjálfbærri starfsemi. Það er það sem við stefnum að í hinum dreifðu byggðum landsins, m.a. með því að færa verkefni inn á svæðin eða kaupstaðina og efla þannig víðtæka þekkingu og stuðla að fjölbreyttum störfum á landsbyggðinni. Þetta er eitt af þeim verkefnum, hæstv. forseti.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson vísaði áðan í það að ríkisstjórnin hefur staðið fyrir ákveðinni stefnu varðandi sjávarbyggðirnar sem við í Frjálslynda flokknum erum ekki sammála. Vissulega eru það sjávarútvegsstefnan, atvinnustefnan og samgöngur sem vega þyngst hvað varðar framtíð þessara staða. Eigi að síður held ég að það málefni sem hér er verið að ræða sé alveg þess virði að því sé fylgt eftir.