133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[21:18]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. landbúnaðarnefnd með hv. þm. Drífu Hjartardóttur í broddi fylkingar fyrir að taka þessa þingsályktunartillögu út úr nefnd og til afgreiðslu þingsins.

Hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson hefur sýnt mikinn og jákvæðan skilning á málinu og á stóran þátt í framgangi þess. Hér er um að ræða stofnun trjáræktarseturs með aðsetur í Vestmannaeyjum en stefnt er að því að mynda sameiginlegt rannsókna- og þekkingarsvæði við Norður-Atlantshaf fyrir fræðasvið sem tengist skóg- og trjárækt. Við Íslendingar munum með þessu taka forustuhlutverk á sviði ræktunar við erfið skilyrði.

Afar takmarkaðar rannsóknir hafa farið fram erlendis á áhrifum særoks á tré, skóga eða annan gróður. Með stofnun slíks seturs er ljóst að það skýtur fleiri stoðum undir þekkingarsamfélag í Vestmannaeyjum.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur fagnað fyrirliggjandi þingsályktunartillögu og mun af fremsta megni styðja við og leggja málinu lið eins og því verður við komið á hverjum tíma.

Landfræðileg lega Vestmannaeyja gerir þær einstaklega hentugar til að hýsa slíkt setur. Í Vestmannaeyjum er þegar starfandi öflugt rannsókna- og fræðasetur sem myndar klasa utan um slíka starfsemi þannig að samlegðaráhrif af nábýli við aðrar sambærilegar stofnanir geta orðið allnokkur.

Það má heldur ekki gleyma því að sú mikla rannsóknarvinna sem unnin hefur verið í veðurathugunarstöðinni á Stórhöfða mun styrkja starfsemi trjáræktarseturs sjávarbyggða í Vestmannaeyjum en þar hefur m.a. verið safnað upplýsingum um mengun, loftslagsbreytingar og fleira í viðbót við feikilega öflugan gagnagrunn með veðurfræðilegum gögnum.

Í Vestmannaeyjum hefur áhugi á skógrækt farið vaxandi og má í því samhengi benda á að á síðustu fimm árum hafa verið gróðursettar á milli 30 og 35 þús. trjáplöntur, bæði af skógræktarfélaginu og starfsmönnum bæjarins.

Virðulegi forseti. Það er von mín og trú að sjávarbyggðir við ysta haf komi til með að njóta góðs af trjáræktarsetri í Vestmannaeyjum. Umsagnir um þetta mál voru allar mjög jákvæðar. Hvað varðar umræðu hérna fyrr í dag varðandi kostnað og útfærslu er afgreiðsla málsins með þeim hætti að málið fer til landbúnaðarráðherra sem ég veit að ætlar að vinna málið í góðri samvinnu við heimamenn. Að lokum þakka ég alþingismönnum fyrir góða umræðu um málið.