133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[21:23]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum sem stafar frá allsherjarnefnd. Nefndin hefur fengið á sinn fund ýmsa sérfræðinga til að fara yfir helstu efnisatriði málsins.

Í þessu frumvarpi er lagt til að refsihámark 106. gr. hegningarlaga sem tekur til brota gegn valdstjórninni verði hækkað úr allt að sex ára fangelsi í allt að átta ára fangelsi þegar um er að ræða brot gegn opinberum starfsmanni sem hefur heimild samkvæmt lögum til líkamlegrar valdbeitingar. Með þessari breytingu er stefnt að því að refsingar fyrir brot gegn þessum aðilum verði þyngri, en eins og fram kemur í fylgiskjali I með frumvarpinu hefur sú refsivernd sem veitt er með ákvæði 106. gr. ekki endurspeglast nægjanlega vel í dómaframkvæmd. Í fylgiskjali I með frumvarpinu er sem sagt að finna dómareifanir, reifanir af helstu dómum á árunum 2003–2006 þar sem einstaklingar hafa verið sakfelldir fyrir brot gegn tilvitnaðri grein hegningarlaga.

Nefndin tók til sérstakrar umræðu hvort bæta ætti við frumvarpið bundinni refsihækkunarheimild sem mælti fyrir um tiltekna lágmarksrefsingu fyrir alvarleg brot þar sem efasemdir voru uppi meðal nefndarmanna um að það mundi nægja eitt og sér að hækka hámarksrefsingu fyrir þau brot sem frumvarpið tekur til. Þetta á sérstaklega við í ljósi þess að refsiramminn virðist illa nýttur af dómstólum og þar sem þetta segir í nefndaráliti er verið að vísa til fylgiskjals I þar sem er að finna dómareifanir eins og áður segir. Ég ætla að leyfa mér að lesa dæmi upp úr fylgiskjali I, á blaðsíðu 8 í frumvarpinu, sem er dómur Héraðsdóms Reykjaness frá 26. október 2004. Ég tek þetta dæmi bara hér af handahófi.

„A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið lögreglumann, sem var við skyldustörf, með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að hann marðist í andliti, vör sprakk og fjarlægja þurfti tönn sem losnaði. Tekið var fram að sakaferill A hefði ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.“

Þetta er einungis eitt af mörgum dæmum úr dómaframkvæmd sem nefndin fór yfir. Á fundum með sérfræðingum var því velt upp hvort tryggt væri að sú leið sem valin er í þessu frumvarpi, þ.e. að hækka refsihámarkið, væri betur til þess fallin en aðrar leiðir, til að mynda sú að setja í frumvarpið bundna refsihækkunarheimild, þ.e. sem mælir fyrir um tiltekna lágmarksrefsingu. Er niðurstaða nefndarinnar sú að frumvarpið gefi þrátt fyrir allt nægjanlega skýr skilaboð um þyngri dóma fyrir brot af því tagi sem hér um ræðir.

Af þeirri ástæðu leggur nefndin ekki til að svo stöddu að bundinni lágmarksrefsingu verði bætt við ákvæði frumvarpsins, en leggur áherslu á að breytingin nái tilgangi sínum og að þyngri refsingum verði beitt í málum af þessu tagi.

Ég rek augun í prentvillu á þskj. 1009 og vænti þess að þingskjalið verði prentað upp þar sem fjallað er um bundna hámarksrefsingu en ætti að standa bundin lágmarksrefsing.

Að þessu sögðu leggur nefndin til að þetta frumvarp verði samþykkt og ég þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf í nefndinni um þetta mál sem ég tel að sendi mjög mikilvæg skilaboð.