133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[21:28]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Um þetta mál var samstaða í allsherjarnefnd og við yfirferð um málið varð þetta niðurstaðan sem hv. formaður nefndarinnar rakti. Það er mikilvægt að mati okkar í minni hlutanum einnig að þegar lögreglumenn og þeir sem eru handhafar lögregluvalds með einhverjum hætti, tollgæslumenn og aðrir, verði fyrir árásum af einhverju tagi séu við því hertar refsingar.

Með vaxandi róstum sem löggæslumenn hvers konar lenda í um helgar og tengjast skemmtanalífi landans er mikilvægt að í rauninni sé undirstrikuð sú vernd sem löggæslumenn eiga og þurfa að njóta við störf sín. Þess vegna teljum við þessa breytingu mikilvæga og styðjum hana eindregið.

Þá var rætt, eins og hv. formaður gat um, um refsirammann og mikilvægi þess að ná fram hækkaðri hámarksrefsingu o.s.frv. Niðurstaðan varð að svo langt yrði gengið nú en ekki gripið til frekari ráðstafana en hér eru lagðar til og teljum við það mjög jákvætt fyrir löggæslumenn og aðra handhafa lögregluvalds að þetta mál nái hérna fram að ganga til að styrkja stöðu lögreglumanna í starfi sínu og þeirra sem vinna við þessi oft erfiðu og hættulegu störf.

Þegar við vitum að glæpir harðna og ofbeldið eykst er mikilvægt að efla um leið vernd fyrir þá sem vinna þessi mikilvægu störf. Sérstaklega er litið til alvarlegra afbrota og harkalegra í fíkniefnaheiminum þar sem æ oftar er gripið til vopna sem hafa gífurlega alvarlegar afleiðingar. Eins og lögreglumaður sagði í viðtali á Stöð 2 um daginn er einungis tímaspursmál hvenær byrjað verður í undantekningartilfellum að hleypa af byssum í átökum í næturlífinu o.s.frv. Það er mikilvægt að lögreglumenn njóti ríkrar verndar og aukinnar og þess vegna er sú grein frumvarpsins mjög mikið fagnaðarefni og studdum við hana eindregið.