133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

466. mál
[21:32]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Margt í frumvarpinu styðjum við sem gerum fyrirvara með undirskrift okkar undir nefndarálit þetta, sá sem hér stendur og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, og þá gerði hv. þm. Sigurjón Þórðarson einnig fyrirvara við málið.

Eitt af því sem við gerum fyrirvara við var að í frumvarpinu er lagt til að íslenska ríkið afhendi þjóðkirkjunni til eignar prestssetur samkvæmt samkomulagi þar að lútandi frá 20. október 2006.

Við gerum fyrirvara við þetta og ræddum í nefndinni hvort það væri eðlilegt að þjóðkirkjunni — hinni svokölluðu þjóðkirkju, við gerðum einnig athugasemdir við það orðalag að í trúfrjálsu landi gæti verið eitthvað sem héti þjóðkirkja — væru afhent til eignar prestssetur samkvæmt samkomulagi. Hvort ekki væri eðlilegra að við þær breytingar sem væru að eiga sér stað á samskiptum íslenska ríkisins og kirkjunnar ætti kirkjan ekki jarðeignir eða miklar landeignir, heldur prestssetur samkvæmt því fyrirkomulagi sem er, prestsbústaði eða eitthvað svoleiðis, en væri ekki eigandi og handhafi mikilla landa þar sem væru ýmis ákvæði.

Til eru sérstakir prestakvótar eða kirkjukvótar til sauðfjárræktar. Sumum af þeim jörðum fylgja heilmiklar nytjatekjur. Fyrir þessu öllu eru góð og gild rök þegar litið er til fortíðar og þeirrar stöðu sem kirkjan hafði þá, þegar stór hluti af starfi prestsins var hvers konar búskapur í sveitunum. Einu rökin sem komu fram í nefndinni þegar við vorum að ræða þetta mál við fulltrúa kirkjunnar voru þau að þetta gerði það að verkum að presturinn ætti lögheimili og byggi á staðnum raunverulega. Er þá verið að tala um presta úti á landi sem væru ekki búsettir t.d. í Reykjavík og kæmu austur, norður, vestur, suður til að þjónusta sóknarbörnin.

Það þótti okkur heldur veigalítil rök í sjálfu sér og lögðum það til að þetta yrði endurskoðað og nútímalegra form fundið á þessu þannig að jarðeignir kirkjunnar heyrðu sögunni til við þessar samningsgerðir og þessa uppfærslu á samskiptum ríkis og kirkju. Eftir þau væri kirkjan ekki eigandi mikilla lendna.

En um það var ekki sátt í nefndinni og ekki gengið neitt lengra með það mál, enda um önnur ákvæði frumvarpsins samstaða og sátt. Þetta mál á sér mikla og langa forsögu, hefur þróast mjög og verið til mikillar umræðu innan kirkjunnar eins og þekkt er af fréttum af prestaþingum og kirkjuráðstefnum hvers konar. Þess vegna m.a. skrifuðum við undir málið með fyrirvara.