133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

466. mál
[22:09]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Alltaf verður mér það ljósara og ljósara að vinstri grænir, og hv. þm. Jón Bjarnason er auðvitað sósíalisti og vill að allt land sé eign ríkisins og harmar hluti sem ég eiginlega botna ekkert í.

Ég tel að ég hafi unnið mjög mikilvægt verk sem landbúnaðarráðherra síðustu ára. Það eru mörg hundruð jarðir sem bændur hafa setið og átt kauprétt á, þeir hafa keypt þær fyrir sig og sitt fólk og verið betur settir á eftir. Það hefur verið fagnaðarefni og margar jarðir sem ekki er kaupréttur á hafa síðan verið seldar með lögum frá þinginu. Þær hafa líka farið í mjög góðar hendur og verið setnar af duglegu fólki. Hreyfingin í sveitina hefur verið mikilvæg. Ég hef sannarlega hvatt bændur sem sitja ríkisjarðirnar til þess að eignast þær og talið það mikilvægt.

Síðan er spurning með þetta sem hv. þingmaður minnist á, að aðkoma landbúnaðarráðuneytisins að samningum ríkis og kirkju var í sjálfu sér engin en það hefur verið ágætissamstarf á milli jarðadeildar og prestssetrasjóðs. Hitt er annað mál að kirkjan heldur nú eftir prestssetursjörðum. Þeim fylgir ekki hjá kirkjunni neinn kaupréttur eða ábúð með þeim hætti sem er á ríkisjörðum sem jarðadeildin fer með en þar eru prestar sem fá leigusamninga og eiga ekki kauprétt. Kirkjujarðir ýmsar heldur svo kirkjan í sem eiga sér sögulegt gildi og eru mikilvægar fyrir kirkjuna og starf hennar. Hvað kristfjárjarðirnar varðar eru þær sennilega margar bundnar líka á baksamningum við sveitarfélögin, eins og við þekkjum öll, ég kann bara ekki að fara vel með það allt saman hér. Það hefur mikið verið að gerast í jarðamálum (Forseti hringir.) og ég held að kirkjan sé betur sett og fari vel með sínar jarðir eins og jarðadeildin hefur gert.