133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

466. mál
[22:14]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er sennilega orðið fullseint að andæfa þessu frumvarpi en ég verð þó að fagna því að tveir nefndarmanna, félagar mínir, hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson og Ágúst Ólafur Ágústsson, hafa skrifað undir samþykki sitt með fyrirvara sem gerð var grein fyrir áðan.

Of seint, segi ég, ekki vegna þess að klukkan sé nú orðin nokkuð margt, sem ég vil þó benda forseta á, og þó ekki verið að ræða nema 5. málið, að ég hygg, á þessari löngu dagskrá. Of seint, ekki endilega vegna þess að lítið sé eftir af þinginu og af þeim sökum ekki fært að hafa hér uppi málatilbúnað, því að þótt lítið sé eftir af þinginu þá er alveg ósamið og málum fullkomlega óskipað hér þessa síðustu daga og er af þeim ástæðum ekkert í vegi að hefja þá baráttu sem hverjum sýnist um hvaða mál sem vera skal. Of seint vegna þess að menn hafi gefist upp fyrir þessum samningum eða þeirri skipan sem hefur verið komið á hér frá í raun og veru 1997 má segja. Ekki endilega vegna þess, því þessir samningar verða auðvitað einhvern tímann teknir upp aftur. En of seint sennilega vegna þess að þessi pappír sem við erum að fjalla um markar lokaslaufuna á þeim viðræðum og því samkomulagi sem forstöðumenn ríkis annars vegar og hins vegar hinar lútersk-evangelísku kirkjudeildar á Íslandi hafa verið að smíða í allmörg ár og því er lýst yfir í athugasemdum að þetta sé hin endanlega lúkning á a.m.k. hluta af þeim málum. Ég sé ekki betur en að hér sé í raun og veru verið að reka smiðshöggið á þetta samkomulag, sem á sér hápunkt í samkomulaginu 1997 og í lögunum sem samþykkt voru á því sama ári.

Ég tel, forseti, enn árið 2007 að með þessu samkomulagi hafi ríkið samið af sér og fulltrúar ríkisins ekki staðið sig í að gæta hagsmuna almennings í landinu gagnvart kirkjudeildinni. Ég segi þetta ekki kirkjudeildinni til hnjóðs eða þjóðkirkjunni á nokkurn hátt til lasts en ég tel að hér hafi verið farið fram af ónógum undirbúningi og menn hafi sætt sig við forna hugsun í þessu og ekki gengið fram með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið þar sem ætti að miða við það til frambúðar hver skyldi vera staða ríkisins annars vegar og þeirrar merkilegu menningarstofnunar sem þjóðkirkjan nefnist oft hins vegar.

Ég tel að í þessu samkomulagi, í þessum lokaþætti þeirrar nýju skipunar sem tekin var upp að ég held árið 1907, það er a.m.k. ártal sem er miðað við, hefði átt að stefna að því að ríki og kirkja væru aðskild sem tvær sjálfstæðar einingar sem hefðu sín á milli það eitt samband sem menn væru sammála um báðum megin. Að öðru leyti hefði kirkjan sitt verksvið, það sem hún kýs sem frjáls félagasamtök, en ríkisvaldið gætti almannahagsmuna í öllum samskiptum sínum við þessa kirkjudeild eins og aðrar deildir, bæði með því að ákvarða um eignir sem eitt sinn voru sameiginlegar eða voru deilumál og síðan með samningum um þau verkefni sem talið væri heppilegt að kirkjudeildin annaðist á vegum ríkisins eða með einhverjum hætti í þess þágu, á sama hátt að breyttu breytanda, og að breyttu breytanda skiptir hér miklu máli, og aðrar kirkjudeildir. Það skiptir máli vegna þess að þetta er auðvitað stærsti söfnuðurinn á landinu og þó að hlutfall hans af þjóðarheildinni hafi minnkað nokkuð á undanförnum áratugum og einkum á síðustu árum af ýmsum ástæðum, þá held ég að hlutfallið sé enn á milli 85 og 90 af hundraði en nær þó ekki tölunni 90. En þetta er auðvitað með þeim hætti að ríkisvaldið hlýtur að taka sérstakt tillit til þessarar kirkjudeildar og mundi gera það jafnvel þótt kirkjudeildin væri ekki negld niður í stjórnarskrá sem einhvers konar þjóðkirkja Íslendinga.

Nú er það eitt mál hversu því er háttað og annað það sem hér er um að ræða, að ríkisvaldið og þjóðkirkjan eru að reyna að skipta með sér þessum gömlu eignum sem rifist hefur verið um í marga áratugi. Ég tel einfaldlega — og ég sagði þetta árið 1997 þegar ég var hér inni sem varamaður og var svo heppinn að Þorsteinn Pálsson, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, var að mæla fyrir því frumvarpi sem að lögum varð þá um vorið — að menn hafi farið rangt af stað í þetta. Í stað þeirrar heildarlínu sem hér varð um að ríkið tæki við eignum kirkjunnar, einkum jarðeignum, en sæi þess í stað um að borga starfsmönnum kirkjunnar laun nánast um aldur og ævi — að þetta hafi verið röng aðferð og miklu betri aðferð hefði verið sú að ríkið gerði hreinlega upp við kirkjuna. Ég geri mér alveg grein fyrir því að kirkjan hefði farið fjárhagslega mjög vel út úr því dæmi en gerði það í eitt skipti fyrir öll, auðvitað með einhvers konar samningum sem tækju til ákveðins tíma, á þann hátt að kirkjan væri sjálf ábyrg fyrir greiðslum til sinna manna og sæi sjálf um það hvar þeir sætu, hve margir þeir væru og hvaða störfum þeir sinntu.

Þetta tel ég enn þá og þess vegna er ég ósáttur við þann lokasamning sem hér var gerður þar sem enn er verið að blanda saman kirkjueignum og ríkiseignum þó að hér sé farin öfug leið við það sem síðast var gert. Vegna þess að það sjónarmið sem áður ríkti var að ríkið tæki til sín eignirnar en borgaði í staðinn prestunum og öðrum þjónum kirkjunnar en hér hefur ríkið að kröfu kirkjunnar látið kirkjunni eftir bæði prestssetur, íbúðir og heilar jarðir sem víða skipta mjög miklu máli. Ég held að síðasti hv. ræðumaður hafi kannski ekki áttað sig á þessu í sinni ágætu þulu að það er þetta sem er fyrst og fremst verið að gera.

Sé nú samningurinn skoðaður í athugasemdunum, forseti, og athugað hvað ríkið fær í sinn hlut og hvað kirkjan fær í sinn hlut þá er það þannig að samkomulaginu er lýst þar í meginatriðum. Það er á síðu 3 í þeirri gerð textans sem hér liggur fyrir. Í fyrsta lagi eru kirkjunni afhent til fullrar eignar og ráðstöfunar prestssetur og prestssetursbústaðir sem hún fékk til umsýslu árið 1993 með fasteignum o.s.frv. þannig að ríkið lætur kirkjunni þetta eftir. Í öðru lagi falla umframkröfur kirkjunnar á undanförnum árum niður. Það má telja ríkinu til tekna en það er í raun og veru það eina sem ríkið fær úr þessum samningi fyrir utan það að ríkið fær viðurkennt eignarhald sitt og þjóðarinnar, því það er þjóðareign, á jörðinni Þingvöllum og kirkjunni þar. Það má segja að ríkið hafi hér fyrst og fremst fengið, a.m.k. að efnislegum gæðum, í sinn hlut þann stað Þingvelli og þá góðu og gömlu kirkju sem þar stendur og má segja að til nokkurs sé unnið þótt ekki séu þessi samningsafrek kannski stórkostleg.

Ríkið fellst enn fremur á, og á því græðir mótparturinn, að hækka framlag sitt til kirkjumálasjóðs um 3% af því gjaldi sem nú er greitt til sjóðsins. Síðan kemur í fylgiskjali sjálft samkomulagið sem er í raun og veru verið að staðfesta. Þar eru taldar upp jarðir á næstum því heilli opnu sem sumar eru myndarlegustu og stærstu jarðir á landinu en aðrar minni. Sumt af þessu er í raun og veru aðeins íbúðarhús. Eðlilegra hefði verið að mínu viti að skipta þessu með öðrum hætti, að ríkið hefði jarðirnar í sinni eigu áfram þótt kirkjan eignaðist sínar fasteignir í íbúðarhúsunum sem ekki er undarlegt. Ég skil í raun og veru ekki hvað kirkjunni kemur til að sækja þetta mál með þessum hætti.

Það var svo, forseti, að prestar fengu umbun sína af prestsverkum og af sínu mikla embætti með því að setjast að á jörð. Þeir tóku hana í raun og veru að léni fyrir 1907 og skiluðu henni síðan aftur til kirkjunnar, sem varð þá ekki greind frá ríkinu, með því að gerð var úttekt á jörðinni og húsum hennar eins og hún var þegar presturinn tók við og síðan önnur þegar presturinn fór frá og presturinn þurfti að jafna það sem í milli bar ef jörðin var orðin fátæklegri eða húsin léleg en ættingjar hans og hann sjálfur högnuðust ef því var öfugt farið. Síðan lifði presturinn á jarðargróðanum og þeim hlunnindum sem fylgdu jörðinni. Stundum var þessu þannig háttað, og var í raun og veru hluti af miðaldaskipulagi okkar, lénsveldinu á Íslandi, að presturinn fékk ekki aðeins jörð heldur í raun og veru heilt hérað til umráða. Ég þekki það ofurlítið af því að ég starfaði með Herði Ágústssyni að bókinni um Laufás. Þar var það frá fornu að presturinn, sem var yfirleitt einhver mestur valdsmaður á Norðurlandi fyrir utan biskupinn sjálfan á Hólum, fékk ekki einungis Laufás heldur fylgdu Laufási leigujarðar allar og presturinn í Laufási var þannig héraðshöfðingi og í raun og veru lénsherra á þeim parti landsins sem þá skipti miklu máli.

Þetta er ekki reyndin lengur. Í raun og veru getur maður ekki komið auga á hvers vegna kirkjan á að eiga miklar jarðir. Það er varla mjög nútímalegt að prestum sé ætlaður búskapur auk þeirra launa sem þeir fá frá ríkinu fyrir embættisverk sín. Ég sé ekki betur en að þjóðkirkjan sé hér með að eignast þessar jarðir sem hreina eign, sem hún hljóti að láta ganga kaupum og sölum ef þar eru þeir fjármálasnillingar sem þessi kirkjudeild er vön að njóta í sínu starfi og hefur gert frá fornu fari. Mér er í sjálfu sér óskiljanlegt af hverju kirkjan vill þetta nema þá að hún hafi séð sér leik á borði gagnvart slökum samningamönnum ríkisins í þessu efni.

Ég get tekið undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að ég tel það ekki heppilegt að þessar jarðir fari með þessum hætti af stað í viðskiptum. Ég tel að þær hefðu verið betur komnar í höndum ríkisins vegna þess að ríkið hefði a.m.k. borið ábyrgð á því að þær yrðu nýttar til hefðbundins landbúnaðar eða til landbúnaðarnota en færu ekki í þá hringekju sem jarðir eru nú að stefna í hér á landi þar sem menn kaupa þær til alls annars en landbúnaðar og gera þær jafnvel að miklu strangari einkaeign en þær hafa nokkurn tímann verið álitnar áður.

Ég ætla ekki að þessu sinni að tala lengur um þetta mál en vil þó af því að þessi ræða kann að þykja nokkuð dapurleg — að hér eru sem sé hörmuð afdrif þessa máls og vakin athygli á því að þeim þurfi í framtíðinni að skipa með öðrum hætti, sem ég held að verði nú smám saman þegar þjóðkirkjan svokallaða verður sjálfstæð kirkjudeild og ríkið verður borgaralegt ríki sem gerir ekki upp á milli þegna sinna eftir trúarbrögðum — fagna þeirri breytingu sem hefur gerst í þessu frumvarpi og á lítið skylt við hina og hún er sú að biskup skipar í öll prestsembætti, til þess var kominn tími fyrir löngu. Það er auðvitað framþróunin í þessu máli, í þeim hæga aðskilnaði ríkis og kirkju sem í raun og veru stendur yfir, að kirkjan fái sitt og ríkið sitt í samræmi við orð hins forna höfðingja, Hvíta-Krists, að keisarinn hafi það sem keisarans er og guð það sem guðs er.