133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

466. mál
[22:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af því að ég skrifaði undir álit þetta sem áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd án fyrirvara, þ.e. lýsti því yfir að ég hefði ekki fyrirvara um málið, langar mig til að skýra það hér í örfáum orðum. Ég er í meginatriðum samþykk og sammála því prinsippi sem hv. þm. Mörður Árnason lýsti í ræðu sinni, þ.e. því að hér sé vélað þannig um hluti að kirkjan fái í sinn hlut prestssetrin og eftir því sem mér skildist á gestum nefndarinnar þær lóðir sem undir prestssetrunum eru. Það var ekki skilningur minn að hér skiptu stórar jarðir um hendur, þ.e. færu úr eigu ríkisins og yfir til kirkjunnar. Ég vil lýsa því hér yfir svo að það fari inn í þingtíðindi og sé ljóst hver skilningur minn á þessu máli er.

Ef um það væri að ræða að hér færu stórar jarðir á milli, að stórar jarðir færu frá ríki og yfir til kirkjunnar, lýsi ég því yfir að mér finnst það ekki rétt ráðslag og það var ekki það sem mér skildist á þeim gestum sem fyrir nefndina komu.

Ég mun síðan kanna milli 2. og 3. umr. hvað nákvæmlega er upp á teningnum í þessum efnum og athuga hvort ég kem á endanum til með að að setja fyrirvara við þetta mál og afgreiðslu þess. Það kann sem sé vel að vera. Í öllu falli er sá skilningur á meginlínum sem hv. þingmaður lýsti á þessu máli sömuleiðis minn skilningur.