133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:44]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Skýrustu afleiðingarnar af 12 ára setu hægri flokkanna í ríkisstjórn er hröð þróun íslensks samfélags í átt að ójöfnuði sem þekkist hvergi á Norðurlöndunum. Við erum á hraðri leið frá norrænu velferðarsamfélagi í átt að ójöfnu markaðssamfélagi á bandaríska vísu. Við jafnaðarmenn höfum því verk að vinna á öllum sviðum samfélagsins.

Nú þegar kjörtímabilinu er að ljúka vil ég nota tækifærið og fara aðeins yfir það hvernig búið er að barnafólki hér á landi. Foreldrar á Íslandi vinna einn lengsta vinnudag í Evrópu og mikið álag er á barnafólki. Þetta álag hefur áhrif á fjölskylduna alla og þá ekki síst börnin sjálf. Byrðarnar sem hvíla á barnafólki eru allt of miklar og við í Samfylkingunni viljum gera það að forgangsverkefni í nýrri ríkisstjórn að létta þessar byrðar og búa þannig börnunum okkar, framtíðinni, örugg og ánægjuleg uppvaxtarár.

Að reka heimili á Íslandi í dag er erfitt og það er líka dýrt. Fyrst vil ég nefna að matarverð er með því hæsta sem gerist í Evrópu. Lækkun matvælaverðs hefur verið baráttumál okkar jafnaðarmanna árum saman og nú loksins, tveimur mánuðum fyrir kosningar, lækkaði ríkisstjórnin matvælaverðið eftir aðgerðaleysi í 142 mánuði. Auðvitað var gott að ríkisstjórnin tók loksins við sér, en þetta var of lítið og of seint. Enginn annar flokkur hefur barist jafnötullega fyrir lækkun matvælaverðs og Samfylkingin og við höfum ítrekað lagt fram útfærðar tillögur um hvernig megi lækka verðið tvöfalt meira en nú hefur verið gert á handahlaupum rétt fyrir kosningar.

Góðir landsmenn. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur þrengt svo að barnafólki að okkur jafnaðarmönnum blöskrar. Settar eru á laggirnar fjölskyldunefndir til skrauts en hvað gerist raunverulega á meðan? Á meðan gerir ríkisstjórnin hver efnahagsmistökin á fætur öðrum og afleiðingarnar eru m.a. hæstu vextir í heimi og sögulegar hæðir í húsnæðisverði. Núna þarf ungt fólk að eiga fimm milljónir í eigið fé til að geta keypt sína fyrstu íbúð en þurfti árið 2002 einungis að eiga eina milljón til kaupa á sambærilegri íbúð. Þetta eru miklar fjárhæðir sem þetta unga fólk þarf að brúa og oftast með lánum og yfirdrætti á ofurvöxtum.

Ofan á þetta hafa efnahagsmistök ríkisstjórnarinnar leitt af sér háa verðbólgu sem fór hátt í 10% í lok sumars. Þeir sem sitja með verðbólguna í fanginu eru almenningur í landinu sem horfir á húsnæðislánin sín bólgna út. Það er óverjandi að almenningur sitji með verðbólgukostnaðinn í fanginu með þessum hætti á meðan þeir sem bera ábyrgð á verðbólgunni, ríkisstjórnin, lítur undan.

Fasteignalánum kemst fólk ekki svo glatt undan. Það þurfa jú allir þak yfir höfuðið. En hvað gerði ríkisstjórnin? Hún keyrði húsnæðisverð upp úr öllu valdi með vondum ákvörðunum og bætti svo gráu ofan á svart með því að skerða vaxtabæturnar um einn milljarð á kjörtímabilinu. Okkar jafnaðarmanna bíður nú það stóra og mikilvæga verkefni að afnema stimpilgjöld, ráðast gegn verðbólgunni og endurreisa vaxtabótakerfið.

Góðir landsmenn. Við í Samfylkingunni munum halda baráttunni áfram þangað til að Íslendingar standa jafnfætis nágrannaþjóðum okkar í matvælaverði, vöxtum og verðbólgu.

Hátt húsnæðisverð, heimsins hæstu vextir, há verðbólga og himinhátt matvælaverð er langt frá því að vera það eina sem leggst á íslensku barnafjölskylduna. Hér bera barnavörur hæsta virðisaukaskatt, leikskólagjöld og dagvistunargjöld í grunnskólum eru há, endurgreiðsla námslána leggst þungt á þá sem hafa stundað nám, tannlæknakostnaður vegna barna og fullorðinna er hár og svona mætti lengi telja. Allur þessi kostnaður leggst af fullum þunga á einu bretti á barnafólk hér á landi. Þessu hefur ríkisstjórnin ekki sýnt neinn skilning og skert barnabætur um 10 milljarða frá árinu 1995 og lækkað verulega tannlæknakostnað og þátttöku í tannlæknakostnaði barna. Barnafólk í lágtekjuhópi og ekki síður barnafólk í millitekjuhópi finnur þetta á sínu eigin skinni á hverjum einasta degi og er nauðbeygt til að leggja á sig allt of mikla vinnu til að ná endum saman.

Við í Samfylkingunni viljum lækka virðisaukaskatt á barnavörum, endurreisa vaxtabótakerfið, endurreisa barnabótakerfið, breyta þriðjungi námslána í styrk að námi loknu, afnema stimpilgjöld, lækka matvælaverð og ráðast gegn verðbólgunni af fullum þunga.

Þegar byrðar fjölskyldunnar eru þyngdar úr öllu hófi líkt og núverandi ríkisstjórn hefur gert undanfarin ár ná afleiðingar þess uggvænlega langt í framtíðina. Framtíð okkar allra býr í börnunum. Okkar skyldur eru að búa þeim örugg og ánægjuleg uppvaxtarár þar sem þeim er gert kleift að taka við keflinu og byggja framtíðina. Úrelt afturhaldssjónarmið? Þetta er ekki það. Þetta eru ekki úrelt afturhaldssjónarmið heldur skýr framtíðarsýn þar sem hagur fólksins í landinu er leiðarljós.

Góðir landsmenn. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur sýnt í verki að hún hefur ekki skilning á þessum verkefnum. Samfylkingin er frjálslyndur jafnaðarflokkur sem stendur vörð um hag heimilanna í landinu. Það munum við sýna í verki fáum til þess ykkar umboð eftir kosningarnar 12. maí. — Góðar stundir.