133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:29]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Gott kvöld, góðir landsmenn. Tíminn er afstæður, 12 ár í sögu þjóðar eru ekki langur tími, 12 ára stjórnarseta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er hins vegar langur tími, allt of langur tími. Vissulega hefur ýmsu þokað fram á við á þessum þremur kjörtímabilum, í sumum tilvikum fyrir tilstilli stjórnvalda, oftar þó þrátt fyrir þau. Staðreyndin er nefnilega sú að á undanförnum áratug höfum við notið góðs af alþjóðlegri uppsveiflu, svo samtengt og næmt er hið alþjóðlega hagkerfi að sveiflurnar ríða nú yfir heiminn allan nær samstundis en eru ekki einskorðaðar við einstök lönd og svæði í þeim mæli sem áður var. Mín kynslóð og þaðan af eldri kynslóðir þekkja hagsveiflurnar, hæðirnar og hinar óvægnu lægðir. Undir lok 9. og í byrjun 10. áratugar síðustu aldar var lægð, samdráttur með fjöldaatvinnuleysi um nánast allan hinn iðnvædda heim, og af þessu fóru Íslendingar ekki varhluta. Í ofanálag geisaði hér óðaverðbólga.

En okkur tókst með sameiginlegu og samstilltu átaki verkalýðssamtaka, atvinnurekenda og félagslega þenkjandi stjórnvalda að ná tökum á verðbólgunni og afstýra efnahagslegri kollsteypu í landinu. Kjörorðið var jöfnuður og samtakamáttur, allir skyldu leggjast á árarnar, enda gengið út frá því að allir væru á sama bátnum. Talað var um þjóðarsátt af því tilefni, enda lagður grunnur að framförum og uppbyggingu þjóðfélagsins. Á 10. áratugnum urðu stjórnarskipti og var þjóðarskútunni nú stýrt til hægri. Minni áhersla var lögð á jöfnuð og sanngjörn skipti og því miður tókst þeim ríkisstjórnum sem fóru með völdin á þeim árum sem nú fóru í hönd undir forustu Sjálfstæðisflokksins ekki að spila þannig úr kortunum að allir þjóðfélagshópar gætu vel við unað. Þrátt fyrir efnahagslegan meðbyr voru nú stórir hópar hreinlega skildir eftir. Þeir urðu út undan.

Það er ömurlegt til þess að hugsa að á tímum efnahagslegs uppgangs skuli fátækt vera við lýði í samfélagi okkar. Það er dapurleg niðurstaða 12 ára valdasetu Framsóknarflokksins og 16 ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins.

Það þarf sterk bein til að takast á við samdrátt í efnahagslífinu. Það þarf líka, og kannski ekki síður, sterk bein til að þola uppgang og þenslu. Það skiptir máli að halda höfði, fara með gát, ætla sér hvorki of né van.

Þetta hafa ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ekki kunnað. Hér hefur verið spennt og þanið til hins ýtrasta án tillits til aðstæðna. Allt skyldi gert á sama tíma og með öfgafullu offorsi. Stóriðjustefnuna þekkja menn. Það er langur vegur frá því að reisa eina eða tvær álverksmiðjur í landinu og til að gera álframleiðslu að uppistöðuatvinnuvegi á Íslandi. Þetta er enn fráleitara nú þegar hægt er að sýna fram á með útreikningum að virðisaukinn af álframleiðslu er hlutfallslega minni en af flestum öðrum atvinnuvegum, fórnarkostnaður náttúrunnar ómældur og ruðningsáhrifin gagnvart öðrum atvinnurekstri gífurleg. Því meira ál, þeim mun minna af annarri atvinnustarfsemi.

Góðir landsmenn. Verkefnið fram undan er að tryggja að allir fái sinn réttmæta skerf og að kaupmáttaraukning verði varanleg og vaxandi. Kaupmáttur verður að vera raunverulegur og byggður á vel reknu þjóðfélagi og vel reknum fyrirtækjum en ekki einvörðungu byggður á lánsfé. Það var hér áður fyrr kallað að byggja hús sitt á sandi. Nú, í aðdraganda þessara kosninga, er mörgum mikið niðri fyrir. Verið er að endurskilgreina hugtök eins og frjálslyndi og íhaldssemi, öfgar og hófsemi. Mér hefur sýnst tilhneiging til að snúa hefðbundinni merkingu þessara orða á hvolf. Vinstri græn hafa staðfastlega talað fyrir hófsemi og gætni í efnahagsmálum og það eru sérstaklega framsóknarmenn sem kalla einmitt þetta öfgar. Þeir sem ekki vilja leggja allt undir strax og undir eins og fara hratt í fjárfestingar, hvort sem er í stóriðju eða á fjármálamarkaði, eru kallaðir íhaldsmenn. Áhættufíklarnir eru hins vegar kallaðir raunsæismenn.

Þetta er slæm þróun. Allt of mikið af þeirri áhættu sem íslenskt þjóðfélag er að taka allt of hratt er á ábyrgð ríkisins og þjóðarinnar allrar. Þetta gildir um virkjanir, um stóriðju, og þetta gildir líka um banka- og fjármálastarfsemi.

Vinstri græn vilja að fyrirtækin í landinu standi í samkeppnisrekstri en samfélagið sjái um rekstur þeirrar þjónustu sem ekki er fallin til samkeppni. Við viljum halda sköttum hóflegum en réttlátum þannig að engum séu gefnir eftir skattar af ótta við að þeir fari burt í fússi.

Stefna sjálfstæðismanna og framsóknarmanna mótast af fjandskap við samfélagsrekna þjónustu, en um leið af óhóflegum ríkisafskiptum. Síðan er það auðmannaóttinn. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur láta stjórnast af auðmannaótta. Auðmannaótta gætir vissulega í fleiri stjórnmálaflokkum en óttinn er ekki góður ráðgjafi og afskiptasemi er ekki góður stjórnunarmáti. Hlutverk stjórnvalda er að reyna að jafna sveiflur, tryggja réttlæti, jafnvægi í efnahagslífi og gæta þess að innra stoðkerfi þjóðfélagsins virki. Við horfum núna á stjórn sem einkennist af ótta við þá sem þarf að hafa hömlur á, óðagot í ákvörðunum sem varða grundvöll ríkisins, stefnuleysi í umhverfismálum, undirgefni, hégóma og bruðl í utanríkismálum, óheiðarleika gagnvart eldri kynslóðinni og svik gagnvart öryrkjum.

Það þarf sterka þjóð til að bera slíka ríkisstjórn á bakinu.

Vinstri græn vilja tryggja að Landsvirkjun spóli ekki upp öllu íslenska hálendinu, að einstaklingum séu sköpuð skilyrði til atvinnurekstrar, m.a. með eðlilegum vöxtum og lánskjörum, einfaldari starfsreglum og vel rekinni og öflugri samfélagsþjónustu. Við viljum að eldri kynslóðin geti átt góð efri ár, við viljum kvenfrelsi, jafnrétti milli kynja, stétta og landshluta. Þetta er í hnotskurn meint öfgastefna Vinstri grænna. Veruleikinn er að sjálfsögðu sá að við viljum hófsemi í nýtingu náttúruauðlinda í stað rányrkju, (Forseti hringir.) frjálslyndi í markaðs- og atvinnumálum í stað einokunar og fákeppni, róttækni í bættri umönnun ungra og aldinna (Forseti hringir.) í stað stöðnunar og varfærni og íhaldssemi í ríkisfjármálum og þegar kemur að varðveislu menningarverðmæta og íslenskrar (Forseti hringir.) tungu.

Þessi ríkisstjórn hefur tekið að sér að gefa græðginni að éta. Það er til marks um hennar hófsemi og hennar skynsemi, (Forseti hringir.) en græðgin verður aldrei södd eins og kunnugt er.

Góðir landsmenn. Er ekki rétt að vísa henni aftast í röðina (Forseti hringir.) næstu fjögur árin og kalla á hófsemina? Hún hefur (Forseti hringir.) meira vit á næringu og leyfir öðrum að njóta með sér. — Góðar stundir.