133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:43]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ágætu tilheyrendur. Alþingi er að glata trausti þjóðarinnar. Í niðurstöðu þjóðarpúls Gallups þann 1. mars sl. kemur fram að aðeins 29% þjóðarinnar beri traust til Alþingis, færri en nokkru sinni frá því að slíkar mælingar hófust fyrir um 14 árum. Þetta hlýtur að vera okkur áhyggjuefni og umhugsunarefni núna á lokadögum þingsins. Ýmsar ástæður koma upp í hugann þegar maður veltir þessu fyrir sér, eins og t.d. starfstími þingsins. Starfstíminn nær einungis yfir hluta úr árinu og þrátt fyrir að þingmenn viðurkenni að þinghaldið sé of stutt flýja stjórnarliðar yfirleitt af hólmi þegar fram koma tillögur frá stjórnarandstöðunni um að lengja starfstímann. Með hverju ári sem líður eykst togstreitan milli ráðherranna í ríkisstjórninni og milli ríkisstjórnarinnar og ákveðinna þjóðfélagshópa, t.d. aldraðra og öryrkja. Svo mikil er togstreitan orðin að aldraðir og öryrkjar telja sig þurfa að fara í eigið þingframboð til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Togstreitan milli ráðherranna í þessari þreyttu ríkisstjórn bitnar á málaflokkum þeirra og þjónustu við almenning.

Svikin kosningaloforð eru hluti af ástæðunni fyrir minnkandi trausti á Alþingi. Korteri fyrir kosningar er ýmsu lofað en korteri eftir kosningar er svo flest svikið í skjóli stjórnarsáttmála meiri hlutans.

Það er nánast orðin regla frekar en undantekning að þingmannamál séu ekki afgreidd frá Alþingi, þá minnkar traustið. Þegar ráðherrar láta svæfa mál í nefndum eða stinga þeim undir stól minnkar traustið á Alþingi. Þegar ójöfnuðurinn eykst í þjóðfélaginu minnkar traustið. Þegar fátækt er orðin viðvarandi minnkar traustið. Þegar ráðherrar og stjórnarliðar neita að axla ábyrgð í málum eins og t.d. í Byrgismálinu minnkar traustið.

Ágætu landsmenn. Það þarf að endurheimta virðingu Alþingis, færa þarf löggjafarvaldið aftur frá ráðherrunum til þingsins. Þegar formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fá sektarkennd 23 árum eftir að forverar þeirra gáfu kvótann okkar og reyna að keyra í gegn á örfáum dögum illa ígrundaðar breytingar á stjórnarskrá þjóðarinnar er Alþingi endanlega rúið öllu trausti.